spot_img
HomeFréttirBesti leikhluti Íslands í háa herrans tíð ekki nóg til að vinna...

Besti leikhluti Íslands í háa herrans tíð ekki nóg til að vinna Bosníu

Ísland mætti Bosníu í kvöld. Ljóst var fyrir leik að Bosnía þyrfti að vinna til að tryggja sér annað sætið og því stærri sigur því betra til að eiga séns á að fara áfram í lokakeppni Evrópumótsins. Ísland tapaði á laugardaginn illa á móti Slóvakíu og því ljóst að þær hefðu eitthvað að sanna í kvöld.

Unnur Tara Jónsdóttir kom inn í byrjunarlið Íslands í sínum 5 landsleik. Stelpurnar byrjuðu leikinn mjög vel, skoruðu fyrstu stigin og komust í 9 – 1. Íslensku stelpurnar voru hreint frábærar í fyrsta leikhluta. Þær héldu boltanum vel, nældu sér í góð færi og spiluðu hörku vörn. Hildur Björg var stórkostleg, skoraði 13 stig og tók 4 fráköst. Staðan eftir fyrsta leikhluta 26 – 13.

Í öðrum leikhluta byrjaði Bosnía með látum, þær nörtuðu jafnt og þétt niður forskot Íslands og náðu loks forystu fyrir hálfleik 41 – 42. Stelpurnar okkar voru ekki að spila sérstaklega illa. Skotin voru ekki að detta og lið Bosníu var miklu betra en í fyrsta leikhluta.

Íslenska liðið kom vel stemmt í þriðja leikhluta. Náðu forystunni aftur og héldu henni fyrri hluta leikfjórðungsins. Síðustu mínútur leikhlutans tók Bosnía yfirhöndina og leiddi fyrir síðasta leikhlutann 52 – 56.

Fjórði leikhluti byrjaði mjög spennandi, Bosnía hélt forystunni en íslensku stelpurnar kroppuðu reglulega í þær. Eftir því sem leið á leikhlutann fóru þær bosnísku að bæta aðeins í og unnu að lokum sanngjarnan sigur 74 – 84.

Byrjunarlið:

Ísland: Helena Sverrisdóttir, Hildur Björg Kjartansdóttir, Þóra Kristín Jónsdóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir og Unnur Tara Jónsdóttir

Bosnía: Milica Deura, Irena Vrancic, Marica Gajic, Irma Rahmanovic og Tamara Kapor

Þáttaskil:

Annar leikhluti var leikhluti Bosníu, þær unnu upp 13 stiga forystu Íslands og komust einu yfir í hálfleik. Eins og það var frábært að vinna fyrsta leikhluta svona stórt, þá reyndist það dýrt að lokum að tapa öðrum með 14.

Tölfræðin lýgur ekki:

Þristarnir voru ekki að detta hjá Íslandi í kvöld. Íslensku stelpurnar settu tvo þrista niður allan leikinn og enduðu með 2/22, 9,09% nýting. Það sem verst er, er að þegar þær spiluðum best, í fyrsta leikhluta, var sóknin byggð á stigum í og við teiginn og aðeins voru reynd tvö þriggja stiga skot.

Hetjan:

Besti leikmaður gestanna var Marica Gajic með 13 stig, 14 fráköst, 4 blokk og 29 í framlag. Leikmaður kvöldsins var án efa Hildur Björg Kjartansdóttir sem átti stórleik, 27 stig, 11 fráköst, 7 stoðsendingar og 33 í framlag. Helena Sverrisdóttir sem var ekki upp á sitt besta í síðasta leik kom sterk til baka og skilaði 35 stigum, 14 fráköstum, 9 stoðsendingum og 35 í framlag.

Einnig er vert að benda á stórleik Unnar Töru Jónsdóttir en þrátt fyrir aðeins 5 framlagspunkta spilaði hún hörku vörn á risann Marica Gajic sem var alveg nokkrum stigum og fráköstum frá sínu besta.

Kjarninn:

Ef leikurinn væri 10 mínútur, þá hefði Ísland unnið stórsigur. Það að liðið hafi spilað svona vel eru frábærar fréttir. Það að þær hafi ekki náð að fylgja því eftir er öllu óskemmtilegra. Liðið spilaði vel á köflum og vonandi er þetta reynsla sem þær byggja á fyrir framtíðina.

Fréttir
- Auglýsing -