Spænska landsliðið er samkvæmt samfélagsmiðlum sambands þeirra komið til landsins, en á morgun munu þær etja kappi við Ísland í lokaleik liðanna í undankeppni EuroBasket 2023.
Miðasala er hafin á leikinn gegn Spáni á morgun og fer fram í gegnum smáforritið Stubb.
Spænska liðið hafði þegar tryggt sér sæti á lokamótinu fyrir yfirstandandi glugga, en það kom ekki í veg fyrir að þær næðu í gífurlega öruggan 43 stiga sigur, 32-75, gegn Rúmeníu nú á fimmtudaginn.
Samkvæmt Evrópulista FIBA er spænska liðið það besta í álfunni. Eftir að hafa unnið titilinn í þrjú skipti af síðustu fjórum (2013, 2017, 2019) enduðu þær í 7. sæti á síðasta lokamóti 2021. Það verður að teljast frekar döpur niðurstaða fyrir þetta gífurlega sterka lið, en þær hafa svarað henni með því að vinna alla fimm leiki undankeppninnar til þessa með að meðaltali 36 stigum.
Hér fyrir neðan má sjá skemmtilegt myndband sem spænska sambandið birti frá komu liðsins til Íslands.
Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil