15:52
{mosimage}
Það er orðið töluvert síðan maður henti í einn pistil hér á karfan.is. Eins og ég sagði í fyrra þá saknar maður áranna í blaðamennskunni og þessir pistlar hafa hjálpað mér við að glíma við þann söknuð. Þó það væri ekki nema til að halda áfram að benda körfuboltaáhugamönnum, og öðrum sem hafa nennt að lesa þessa pistla, á alla þá efnilegu krakka sem við eigum.
Mig minnir að síðasti pistill sem ég skrifaði hafi komið um áramótin. Það hefur margt gerst síðan þá. Eftir mikil læti og mótmæli voru þáverandi ráðamenn bornir út af Alþingi og vinstri stjórn tekin við. Sjálfur átti ég aldrei von á því að vera bendlaður við vinstri kantinn en eftir alla spillinguna sem hefur viðgengist hjá þeim bláu gat ég ekki kosið þá. Það er skrítið í dag að styðja flokka sem maður á enga hugmyndafræðilega samleið með nema að hluta til. En ég kýs frekar heiðarlegt fólk en spillta tækifærissinna. Svo voga þingmenn sjálfstæðisflokks og framsóknarflokks sér að gagnrýna núverandi ríkissjórn. Vissulega er hægt að gagnrýna þessa ríkisstjórn en ég veit ekki hvort þessir tveir flokkar sem ég nefndi geti gert það með góðu móti. Ef að ég væri búinn að fara með KR liðið úr því að vera að berjast um alla titla í IE deildinni niður í 2. deild þar sem við værum með lakari liðum, gert KR gjaldþrota í leiðinni, komin væru upp mörg spillingarmál og siðlaus athæfi væru að poppa upp á degi hverjum – væri ég í einhverri aðstöðu til að gagnrýna þann þjálfara sem væri tekinn við af því að ég var borinn út eftir að hafa neitað að segja af mér. Nýr þjálfari sem myndi reyna að byggja KR liðið upp aftur fengi ábyggilega sinn skerf af gagnrýni sem fylgir starfinu en ég hefði allavega rænu á því að halda mér saman og ég held að þessir tveir flokkar sem hérna stjórnuðu sem lengst ættu að fara varlega í sína gagnrýni.
IE-deildin var glæsileg síðasta vetur og fengum við oddaleik hjá bæði konum og körlum eftir mikla spennu og dramatík. Síðasta sumar gekk mikið á á leikmannamarkaðinum hjá körlunum en allt var rólegt hjá stelpunum. Þetta virðist hafa snúist við núna og nokkur stór leikmannaskipti hafa átt sér stað í IE-deild kvenna. Það er þó nóg eftir af sumrinu og ýmislegt sem getur gerst áður en deildarnar fara af stað.
Úrslitakeppnin hérna heima var frábær og ekki var hún síðri í NBA. Margir magnaðir leikir og einhverjir fara í sögubækurnar. Stöð2 Sport setti met í fjölda leikja í beinni útsendingu og var atvinnulífið á Íslandi nánast í lamasessi í maí og hálfan júní þar sem starfsmenn og kúnnar voru ekki að mæta fyrr en um hádegi eftir langar og strangar NBA nætur. Svo var auðvitað alveg týpískt að leikirnir á virkum dögum fóru alltaf í framlengingu og stundum fjórar á meðan leikirnir um helgar kláruðust í venjulegum leiktíma þegar fólk var í fríi daginn eftir. Það var síðan Los Angeles Lakers sem stóðu uppi sem sigurvegarar þetta árið. Eftir að hafa tapað nokkuð illa fyrir Boston Celtics fyrir ári síðan í úrslitum skein einbeitingin úr hverju andliti Lakersmanna og engin var einbeittari en stjarna liðsins, Kobe Bryant. Kobe var hreinlega magnaður og gerði allt sem hann þurfti til að drífa liðið áfram. Það þurfti NBA titil til þess að fá "sólargeislan" Paul Gasol til að brosa en hingað til hefur Gasol látið gömlu goðsögnina Robert Parish líta út sem stuðbolta í samburði við sig. Ég hef meira að segja átt hjólkoppa sem hafa haft meiri útgeislun en Gasol.
Núna er sá árstími þegar fótboltinn tröllríður öllu íþróttalífi. Ég er mikill knattspyrnuáhugamaður en hef aldrei farið í það að bera saman körfubolta og fótbolta. En mikið öfunda ég fótboltann á þættinum Pepsimörkin. Þvílíkur snilldarþáttur sem ég missi aldrei af. Þeir Tómas Ingi og Maggi Gylfa, eru ekki að skafa af því eða tala í kringum hlutina heldur segja bara það sem þeim finnst. Maggi þjálfaði mig einu sinni í körfubolta hjá KR og var sjálfur í körfu á sínum tíma. Veit ekki með körfuboltahæfileika Tómasar Inga. Svona samantekt eftir hverja umferð er gulls í gildi. Maður lætur sig dreyma um að karfan fái einhvern daginn svona þátt. Það yrði það besta sem gæti gerst fyrir körfuna. Viðtölin við menn strax eftir leik þegar allt adrenalínið og allar tilfinningarnar eru í hámarki, allt beint í æð rétt eftir leik. Viðtalstækni þjálfara Fram er þó sérstaklega athygliverð. Hann virkar á mann jafn líflegur og leikstíll og skemmtanagildi Fram liðsins. Efast um að hann sé að fá mörg tilboð um að vera veislustjóri hjá einstaklingum eða fyrirtækjum út á þessi viðtöl. Engu að síður hæfur þjálfari sem hefur gert góða hluti hjá Fram. Mínir menn í KR eru í ágætis málum og eru að berjast um 2. sætið á eftir FH ásamt nokkrum öðrum liðum. Vantar aðeins meiri stöðuleika í liðið til að geta ógnað FH að einhverju leiti. Síðasta vika eða svo hefur verið gleðileg fyrir okkur KR-inga þar sem Prince Rajcomar skoraði loksins en hann hafði sýnt góðan stöðuleika í því að skora ekki fram að því. Eftir 12 leiki í deild og einhverja leiki í bikar var hann ennþá með fleiri eyru en skoruð mörk sem getur ekki talist gott fyrir framherja. Framherjar eru dæmdir af mörkunum sem þeir skora. Þá vannst frækin sigur í Evrópukeppninni sem skilar tugum milljónum í kassan. Væri ekki slæmt ef sama fyrirkomulag væri í körfuni.
Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að tímabilið í IE-deildun karla og kvenna sé allt of stutt. Ef ég tek t.d kvennalið Snæfells þá hóf það leik 15 október og lauk keppni 25. Febrúar. Þetta gerir 4 mánuði og 10 daga og inni í því er langt jólafrí. Hjá karlaliði Tindastóls var Íslandsmótið 4 mánuðir og 19 dagar. Til samanburðar er Pepsi-deild karla í fótbolta í 4 mánuði og 16 daga. Knattspyrna er sumaríþrótt sem er stunduð úti og tímabilið er svona stutt af því að veðurskilyrði bjóða ekki upp á lengra tímabil. Í körfunni getum við föndrað með þetta eins og við viljum. Vissulega spila liðin lengur sem fara t.d. alla leið í úrslit. Það bætist við heill mánuður hjá þeim liðum. Áður en úrslitakeppnin hefst spila öll liðin 22 leiki. Það eru jafn margir leikir og leiknir eru í Pepsi-deild karla. Stelpurnar spila 20 leiki sem er minna en knattspyrnumenn leika. Þá er óupptalin 1. Deildin en þar eru ennþá færri leikir og einungis spilað á ca 8-10 daga fresti. Þrátt fyrir stutt tímabil í körfunni hefur verið allt of mikið um 7-10 daga hlé. IE-deildin er nánast spiluð í skorpum. Stundum eru 3 leikir á 8 dögum og síðan kemur 10 daga hlé. Í Finnlandi er spiluð fjórföld umferð og í Svíþjóð er spiluð þreföld. Það er spurning hvaða leið hentar okkur hér á klakanum en það er allavega mín skoðun að tímabilið í körfunni á að vera lengra með fleiri leikjum. Það er ekki hægt að byrja fyrr en það er vel hægt að spila lengur fram á vor eins og er gert í flestum öðrum deildum.
Ég hef lengi verið með það í maganum að halda flottar æfingabúðir og núna í sumar lét ég loksins verða af því. Mér til aðstoðar fékk ég leikmenn sem allir eiga það sameiginlegt að hafa leikið sem atvinnumenn erlendis ásamt reyndum þjálfurum hérna heima. Í búðirnar mættu 110 metnaðarfullir krakkar og unglingar frá hinum og þessum félögum. Strákar voru í töluverðum meirihluta en þær 20-30 stelpur sem mættu stóðu sig gríðarlega vel. Svona í lokin verð ég að minnast á unglinga sem vöktu athygli mína í búðunum fyrir skemmtilega takta. Í búðunum var ungt fólk sem ég hef þegar tekið fyrir eins og Þorsteinn Ragnarsson, Þór Þ, og Berglind Gunnarsdóttir, Snæfelli.
Thelma Lind Ásgeirsdóttir er leikstjórnandi frá Keflavík. Thelma er fædd 1993 og kemur úr gríðarlega sterkum árgangi sem hefur verið mjög svo sigursæll og hefur Thelma stýrt liðinu af miklum myndarskap. Hún hefur flest sem góður leikstjórnandi þarf að hafa. Hún er óeigingjörn en getur tekið af skarið þegar þess þarf. Hún virkar á mig sem traustur karakter sem er framlenging þjálfarans á vellinum. Thelma er þó bara ein af fjölmörgum stelpum sem eru að koma upp úr yngri flokka starfinu hjá Keflavík þar sem Magga Stull ásamt öðrum þjálfurum hefur gert frábæta hluti. Annar leikstjórnandi sem heillaði mig í búðunum og kom mér svakalega á óvart er Birgir Þór Sverrisson frá Skallagrími. Birgir er fæddur 1993 og hefur algjörlega farið framhjá mér hingað til. Birgir er langt frá því að vera bestur í sínum árgangi í dag en hann er með eiginleika í leikstjórnandastöðunni sem erfitt er að kenna. Hann minnir mig mikið á ekta evrópskan leikstjórnanda. Birgir er líkamlega sterkur, með lágan þyngdarpunkt og gríðarlegt auga fyrir sendingum. Þá getur hann sótt á körfuna og skotið. Virkar á mig sem gríðarlega heilsteyptur leikmaður. Hann er ekki að fara að setja upp 30 stiga leiki heldur er leikmaður sem þrífst best með góða leikmenn í kringum sig. Fyrir mér er hann óslípaður demantur sem á eftir að koma bakdyramegin inn og láta að sér kveða.