Benedikt Guðmundsson var ekki sáttur með ósigur í fyrsta leik í dag eftir jólafríið. KR-liðið hans tapaði með þremur stigum gegn Haukum á Ásvöllum í hörkuleik, 72-69.
„Maður veit aldrei við hverju á að búast í fyrsta leik eftir jólafrí. Fyrsti leikur eftir svona hlé er alltaf stórt spurningarmerki,“ sagði Benni um ástæðuna fyrir að hans stelpur mættu illa undirbúnar í leikinn.
Tveggja vikna leikjahléið hefur ekki verið gott fyrir liðið hans Benna. „Já, jólafríið var ekkert frábært fyrir okkur. Það voru veikindi og meiðsli og einhverjar að vinna og einhverjar erlendis og svona. Hildur Björg í kistulagningu í gær og ekki með á síðustu æfingu fyrir leik. Allskonar svona og það bara fylgir þessu,“ sagði hann en hélt að þetta væri ekki bara svona hjá sínum stelpum. „Þetta er eflaust svona á fleiri stöðum.“
Benni taldi að KR hefði bara ekki mætt með góðan haus í leikinn. „Mikið um mistök og einbeitingarleysi, allavega hjá okkur í þessum leik,“ sagði hann. Villurnar fóru fljótt að hlaðast upp hjá hans liði en Benni vildi ekki kannast við að það hefði hallað á sínar stelpur, þó að KR hafi fengið átta fleiri villur dæmdar á sig í leiknum. „Var þetta ekki bara eitthvað svipað hjá báðum?“ sagði hann og sagði svo ekki meira um málið.
Sanja Orazovic átti svo slakan leik í dag að það hefði mátt halda að hún hefði lent samdægurs. Benni sagði að svo væri ekki. „Sanja var komin fyrir áramót, hefur bara ekki náð mörgum æfingum með okkur. Einbeitingarleysi hjá henni eins og hjá mörgum öðrum. Við vorum ekki að fara eftir varnaratriðum sem við ræddum, það var ekki bara hún,“ sagði Benni.
Fyrsti leikurinn fór fyrir bí hjá KR, en Benni vildi bara líta fram veginn til næstu leikja. „Við þurfum bara að finna taktinn aftur. Hann verður kominn eftir nokkra leiki eftir svona hlé, þegar við förum að spila leiki og æfa aftur saman. Við erum búin að ná einni æfingu þar sem að við náðum 10 manns þar sem við náðum að spila fimm á fimm,“ sagði Benni um æfingaleysi liðsins í jólafríinu.
Nú þegar fleiri lið eru farinn að sýna styrk sinn í deildinni eru KR-ingar í þriðja sæti með Hauka einum sigri á eftir sér í fjórða sæti. Hafa þær efni á að spila sig aftur í gang í næstu leikjum meðan önnur lið virðast miklu tilbúnari í seinni hluta tímabilsins? „Þetta er bara gangurinn í þessu. Það eru öll lið svona, ekki bara við. Ég er náttúrulega alltaf ósáttur að tapa en ég er ekkert brjálaður að tapa gegn Haukum á útivelli,“ sagði Benni.
Haukar spiluðu vel í kvöld og Benni sparaði ekki hrósið á andstæðinga sína. „Þetta er hörkulið. Þær eru með bandarískan og evrópskan leikmann eins og við og með frábæra Íslendinga. Þó nokkrar voru í landsliðinu síðast og þetta er bara frábært lið sem var betra en við í dag,“ sagði hann.
„Nú er bara áfram gakk,“ sagði Benni um komandi leikjatörn og hélt inn í búningsklefa, eflaust til að ræða við sitt lið um hvað betur hefði mátt fara í þessum leik.