spot_img
HomeFréttirBenedikt: Stutt í báðar áttir í töflunni

Benedikt: Stutt í báðar áttir í töflunni

Þór Þorlákshöfn skellti KR 102-88 í Domino´s deild karla í kvöld. Benedikt Guðmundsson þjálfari Þórsara var að vonum sáttur með sigurinn en sagði liðið enn eiga eftir að laga fullt af hlutum. Karfan.is heyrði í Benedikt í kvöld eftir viðureign liðanna í Icelandic Glacial Höllinni í Þorlákshöfn.
 
,,Þetta var alvöru slagur, tvö lið að mætast sem langaði mikið í sigur og þurftu á honum að halda. Menn voru að selja sig dýrt og það eru alltaf einhverjir pústrar þegar tvö keppnislið mætast en þetta var skemmtilegur körfuboltaleikur,” sagði Benedikt en Þórsarar slitu sig langt frá gestunum í fjórða leikhluta.
 
,,Þetta var jafnt fram að fjórða, við vorum alltaf með smá forystu en þeir náðu að minnka þetta niður í einhver þrjú stig á tímabili. Við vorum með um 10 stiga forskot þegar það kemur smá syrpa þarna m.a. með tæknivillu og þetta var fljótt að detta úr einhverjum 10 stigum upp í 17 stig og þá svona kláraðist þetta endanlega,” sagði Benedikt sem gerir sér fyllilega grein fyrir því að sigur eða tap í þessari deild þeysa liðum hratt og langt upp eða niður stöðutöfluna.
 
,,Það er stutt í báðar áttir í töflunni fyrir öll lið. Ég var hæfilega sáttur með leikinn í kvöld, fullt af atriðum varnarlega sem ég var ósáttur með. Við vorum að fá á okkur mikið af stigum og það er hættulegur leikur. Auðvitað er það alltaf sterkt að vinna KR sama hvort það er í leik sem reynist varnarleikur eða sóknarleikur. Þetta var svona fullmikið á sóknarhliðinni í kvöld og fullt af hlutum sem við eigum eftir að laga. En að safna stigum á þessum árstíma er eitthvað sem ég er sáttur við.”
  
Fréttir
- Auglýsing -