Valur hafði betur gegn Njarðvík í oddaleik undanúrslita Subway deildar karla í gærkvöldi, 85-82. Valur fer því í úrslitin þriðja árið í röð, en þar munu þeir mæta Grindavík.
Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur var eðlilega þungur eftir að falla úr leik:
Í fyrsta lagi…þú vilt nú sennilega ekki ræða það mikið við mig, en þetta var frábær leikur í kvöld og geggjuð stemmning en þú ert væntanlega ekki mikið að hugsa um það núna…
“Neinei. Fyrir mér er heimurinn hruninn! Það eru alltaf tilfinningarnar eftir að maður dettur út. Manni finnst heimurinn bara vera hruninn og maður dettur í semi þunglyndi, þannig líður manni núna og erfitt að vera jákvæður. En ég get verið jákvæður með liðið mitt í vetur, ég er ofboðslega ánægður með liðið mitt í vetur. Við vorum mjög nálægt því að fara hérna í úrslitin þannig að bara hrós á liðið mitt fyrir veturinn í heild en það er ofboðslegt svekkelsi að tapa svona.“
Já og þetta var ansi leiðinlegt tap. Þið leiðið leikinn mikið til, Valsmenn taka leikhlé þegar það eru 5 rúmar eftir og þið 11 yfir…og ég var farinn að gefast upp fyrir hönd Valsmanna. En svo skorið þið bara ekki stig í einhverjar góðar 4 mínútur…maður sér þetta oft gerast í körfubolta og ef þú kynnir svörin við þessu þá hefðuð þið ekki tapað leiknum…
“Neineinei…ef það væri einhver töfraformúla þá væru allir að nota hana í svona stöðu. Þeir ná þarna góðum stoppum, setja risakörfur og stemmningin snýst algerlega með þeim á meðan við koðnum.“
Já, það hefur áhrif á sterkustu menn og það vill ekkert ofan í…
“Jájá, það var bara ekkert að ganga og við vorum ekki að framkvæma vel, það er ekkert launungarmál. Þó svo við höfðum talað um að gera það ekki að fara að verja þetta forskot og hægja á þessu og svona þá bara gerist það ósjálfrátt. Það sem við reyndum bara gekk ekki.“
Akkúrat. Að lokum, Valur eða Grindavík, hvort liðið tekur titilinn?
“Mér finnst Grindavík vera með langbesta liðið og mestu gæðin, mér finnst þeir líklegir til að verða Íslandsmeistarar. Lykilatriði er að þeir haldi haus, ef þeir halda haus þá finnst mér þeir líklegir til að klára þetta.“
Einmitt. Bara takk fyrir veturinn og gangi þér vel í hverju sem þú tekur þér fyrir hendur.
“Takk fyrir það!“