Benedikt Guðmundsson var kynntur sem nýr landsliðsþjálfari A-landsliðs kvenna í hádeginu í dag. Benedikt tekur við af Ívari Ásgrímssyni sem sagði starfi sínu lausu eftir síðustu undankeppni sem lauk í nóvember síðastliðinn.
Benedikt og Hannes S. Jónsson formaður KKÍ handsöluðu samninginn nú í hádeginu. Samningur Benedikts er til fjögurra ára eða út undankeppni HM 2023. Ekki hefur verið gengið frá ráðningu aðstoðarþjálfara liðsins.
Benedikt hefur þjálfað kvennalið KR síðustu tvö tímabil og hefur gert frábæra hluti með liðið á nýliðatímabili sínu á þessu tímabili. KR hefur komið á óvart og verið í toppsætinu stóran hluta tímabilsins en liðinu var spáð falli fyrir tímabilið.
Auk þess hefur Benedikt þjálfað lið Þórs Akureyri, Þórs Þorlákshöfn auk meistaraflokka KR. Hann gerði meistaraflokk karla hjá KR að Íslandsmeisturum árin 2007 og 2009 auk þess sem hann stýrði meistaraflokki kvenna til Íslandsmeistaratitils árið 2010. Einnig hefur Benedikt stýrt yngri landsliðum Íslands.