spot_img
HomeFréttirBenedikt: Kveð KR með stolti

Benedikt: Kveð KR með stolti

 
Benedikt Guðmundsson tók í kvöld við liði Þórs úr Þorlákshöfn en á nýafstaðinni leiktíð stýrði hann kvennaliði KR til Íslandsmeistaratitils og slíkt hið sama gerði hann með karlalið félagsins tímabilið 2008-2009. Karfan.is ræddi við Benedikt um vistaskiptin en hann ætlar sér að þjálfa körfubolta næstu tvo áratugina það minnsta.
,,Markmiðið er að byggja upp lið frá grunni sem á eftir að verða gott í körfubolta. Ég er ekki farinn að huga að leikmannamálum liðsins, það verður bara að koma í ljós á næstunni hvernig það þróast en ætlunin er að byggja þetta upp á ungum og efnilegum leikmönnum sem verða góðir í framtíðinni,“ sagði Benedikt í handfrjálsa búnaðinn á leið sinni úr Þorlákshöfn.
 
,,Aðstæðurnar í Þorlákshöfn eru virkilega góðar og þær breyttust mikið til hins betra eftir að unglingalandsmótið var haldið þarna, í dag er allt til alls þarna,“ sagði Benedikt sem mun keyra á milli á næstu leiktíð en hann er búsettur í Reykjavík. ,,Það er enga stund verið að keyra þetta, ég var um korter út í DHL-Höll og ég er ekki nema 10-15 mínútum lengur út í Þorlákshöfn,“ sagði Benedikt sem nú verður ekki í ósvipaðri stöðu og þegar hann tók við liði Fjölnis í 1. deildinni.
 
,,Ég var með Fjölni fyrir einhverjum árum og þetta er svipaður pakki núna, ég tók við Fjölni í 5. sæti í 1. deild og eftir hellings vinnu var liðið komið í undanúrslit í úrvalsdeild. Stefnan er að endurtaka leikinn, gera ungt félag að sterku úrvalsdeildarliði,“ sagði Benedikt sem kveður Vesturbæinn sem einn sigursælasti þjálfari KR frá upphafi. Benedikt á að baki tvo Íslandsmeistaratitla með karlalið félagsins, einn hjá kvennaliðinu og fjölmarga í yngri flokkum félagsins.
 
,,Það var erfiðara að kveðja KR en maður reiknaði með, það var bara alls ekki auðvelt og KR hjartað verður alltaf á sínum stað en það hjálpar að maður fer stoltur frá félaginu.“
 
 
Ljósmynd/ www.thorkarfa.comFrá undirskriftinni í Þorlákshöfn.
Fréttir
- Auglýsing -