spot_img
HomeFréttirBein textalýsing: Ísland-Noregur U16 karla

Bein textalýsing: Ísland-Noregur U16 karla

Hér að neðan er bein textalýsing úr viðureign Íslands og Noregs í flokki U16 ára karla á Norðurlandamótinu í Svíþjóð. Ísland vann frækinn sigur á Eistum í gærkvöldi og eiga fyrsta leik dagsins af íslensku liðunum. 
Eyjólfur Ásberg eftir leik: 
 
 
Ísland 86-84 Noregur – Tölfræði leiksins

*Um flautukörfu var að ræða og dómarar leiksins ákváðu að notast ekki við myndbandsupptökur til að skera úr um lögmæti körfunnar og við það voru Norðmenn afar ósáttir enda stendur þetta ansi tæpt.

 
Þórir Þorbjarnarson 33 stig, 7 fráköst
Eyjólfur Ásberg Halldórsson 21 stig, 9 fráköst (sigurstoðsending leiksins)
Ingvi Þór Guðmundsson 11 stig og 4 fráköst

Fjórði leikhluti

– Íslenskur sigur á flautukörfu gott fólk – Eyjólfur varði skot Norðmanna og skotklukka þeirra norsku rann út. Ísland átti innkast á sínum vallarhelmingi, brunuðu upp þar sem Eyjólfur Ásberg fann Jörund Snæ einan í teignum sem skoraði um leið og leiktíminn rann út. Dómarar leiksins ráðfærðu sig um hvort karfan væri gild og dæmdu hana gilda án þess að styðjast við myndbandsupptöku, lokatölur 86-84 Íslandi í vil. Enn einn spennusigur hjá íslenska liðinu, áskrift á hækkaðan blóðþrýsting að sjá leiki með U16 ára liði Íslands.

– 4,7 sek eftir og Eyjólfur Ásberg ver þriggja stiga tilraun Norðmanna! 

– Góð íslensk vörn endar á því að Árni Elmar nær boltanum og finnur Eyjólf Ásberg í teignum og Norðmenn brjóta á honum, Eyjólfur fær tvö víti og jafnar leikinn 84-84 þegar 29,9 sekúndur eru til leiksloka! Norðmenn taka leikhlé.

– Brynjar Karl brýst upp völlinn og Norðmenn brjóta á honum í sniðskoti, Brynjar fær tvö víti. Setur fyrra og 81-84 – setur seinna og minnkar muninn í tvö stig, 82-84. 

– 80-84 Eyjólfur Ásberg setur niður eitt af tveimur vítum þegar 1.48mín eru eftir.

– Átjándi tapaði boltinn í íslenska liðinu sem Norðmenn refsa með hraðaupphlaupi og leiða nú 79-84 og eru á 2-9 spretti. 2.03mín til leiksloka og Ísland var að ljúka við leikhlé.

– 79-80 Norðmenn skella niður þrist, þeirra tíundi þristur í leiknum! 

– 77-75 Þórir Þorbjarnar kemur Íslandi yfir á nýjan leik, fékk góða stoðsendingu frá Brynjari Karli eftir að hafa verið fyrstur upp völlinn í hraðaupphlaupi. Norðmenn svara og jafna strax 77-77 í næstu sókn.

– Íslenska liðið hefur farið afar ógætilega með boltann síðustu mínútur, bakverðirnir að keyra inn í norsku vörnina og hefja sig til flugs án þess að hafa í raun hugmynd um hvað þeir ætli að gera, oftar en ekki er þetta að enda í erfiðum sendingum sem Norðmenn rífa í sig.

– 73-73. Norðmenn búnir að jafna og Borce bað um leikhlé fyrir íslenska liðið. 5.16mín til leiksloka.

– 73-69 Brynjar Karl setur niður tvö víti fyrir íslenska liðið en Norðmenn svara að bragði og minnka í 73-71.

– 71-67 og 7 mínútur eftir af leiknum…þetta verður hjartastyrkjandi allt þar til lokaflautan gellur.

– 67-63 fyrir Ísland og rúmar átta mínútur eftir af leiknum. 

– Þórir er eins og maðurinn sagði „í ruglinu“ – stelur af Norðmönnum boltanum í tvígang við þeirra eigin körfu og skorar í bæði skiptin, kemur Íslandi í 65-60, áhlaupið enn í gangi og er orðið 18-0 og Þórir kominn í 23 stig, sá er heldur betur búinn að finna fluggírinn.

– Fjórði leikhluti er hafinn, Ísland byrjar með boltann.

Þriðji leikhluti

– Norðmenn gerast sekir um dómgreindarleysi, brjóta á Ingva Þór í erfiðu skoti um leið og leiktíminn er að renna út, Ingvi var í þriggja stiga skoti og hann þakkaði auðvitað fyrir sig með því að setja öll þrjú vítin! Staðan 61-60 fyrir Ísland sem lokaði þriðja leikhluta með 14-0 lokaspretti, hrikalega vel gert hjá drengjunum! 

– 58-60 enn skorar Þórir og nú eftir gegnumbrot, strákurinn kann vel við sig þegar leikar eru komnir í járn.

– 56-60 Þórir Þorbjarnarson tekur þrist sem vill ekki niður en nær sínu eigin sóknarfrákasti og skorar í teignum, áhlaup Íslands orðið 9-0 og Norðmenn taka leikhlé þegar 38 sekúndur eru eftir af þriðja leikhluta. Frábær kafli hjá íslenska liðinu úr stöðunni 49-60.

– 54-60 Þórir með stoðsendingu á Eyjólf Ásberg sem minnkar muninn niður í 6 stig og íslenska liðið statt á 7-0 spretti og mínúta eftir af þriðja.

– 49-60 Ingvi Þór minnkar muninn í 11 stig og svo strax í kjölfarið dettur fyrsti íslenski þristurinn en hann setur Þórir Þorbjarnarson og minnkar muninn í 52-60.

– 47-60 fyrir Noreg og 2.57mín eftir af þriðja leikhluta þegar Borce tekur leikhlé fyrir Ísland. 
 

– Fjórar og hálf eftir af þriðja leikhluta og Norðmenn leiða 47-56. Ísland reynir nú fyrir sér í svæðisvörn en þristarnir láta enn bíða eftir sér, 11-0 í þriggja stiga skotum til þessa!

– Sveinbjörn hefur verið sterkur undir körfunni í dag og er kominn með 7 fráköst, hann var rétt í þessu að hirða frákastið og lauma boltanum jafn óðum ofaní, 45-52 

– Eyjólfur Ásberg Halldórssin hefur skorað einu stig Íslands í þriðja leikhluta hingað til, Norðmönnum gengur örlítið betur og hafa náð 7 stiga forskoti, 41-48

Hálfleikstölur

 
Ísland 39-45 Noregur

Skotnýting liðanna í hálfleik:

Ísland: Tveggja: 57,1% – þriggja 0% (0-8) og víti 53,8%
Noregur: Tveggja 33,3% – þriggja 75% og víti 62,5%

Margir góðir kaflar hjá íslenska liðinu í fyrri hálfleik en varnarleikur okkar manna hefur verið betri, bakverðirnir að gleyma sér og skilja heita Norðmenn eftir auða og opna fyrir utan þriggja stiga körfuna og þeir norsku þakka pent fyrir það með 75% þriggja stiga nýtingu í fyrri hálfleik!
 


Annar leikhluti:

 
– Fyrri hálfleik er lokið, Norðmenn leiða 39-45.

– Íslenska liðið hefur enn ekki sett þrist allan leikinn, liðið er 0-8 í þristum rétt eins og í leiknum gegn Eistum í gærkvöldi, sá níundi datt í gær, gerist það sama í dag? 

– 39-41 Þórir Þorbjarnar skorar eftir flott hraðaupphlaup en það vantar meira bindiefni í íslensku vörnina.

– 37-39 Ingvi Þór minnkar muninn fyrir Ísland niður í tvö stig með gegnumbroti. 

– 32-37 Brynjar karl með aðra körfu í teignum, íslenska liðið er að leita nokkuð að Brynjari núna í teignum þar sem varnarmaður hans á ekki gott með að dekka Brynjar í kringum körfuna. 

– 30-37 og 4mín eftir af fyrri hálfleik. 

– Norðmenn taka rispu og komast í 30-34, íslenska vörnin gleymdi sér eitt augnablik og fengu t.d. enn einn þristinn yfir sig. Norðmenn eru að hitta vel fyrir utan og Borce þjálfari tekur leikhlé fyrir Ísland og fer betur yfir varnarleikinn, hemja verður Norðmenn fyrir utan þriggja stiga línuna. 
 

– 29-25 Brynjar Karl með flotta hreyfingu á blokkinni og gerir sín fyrstu stig í leiknum. 
 
– 27-23 Þórir Þorbjarnar kemur Íslandi í fjögurra stiga forystu og Norðmenn taka leikhlé. Eyjólfur Ásberg hefur einnig verið sprækur, virðist finna sér leið upp að körfunni þegar honum hentar og er kominn með 11 stig.
 
– 23-23 Adam Eiður fer sterkt að körfunni og jafnar fyrir Ísland, sterklega gert hjá stráknum.
 
– 19-23 og Norðmenn eru 5-6 í þristum, þeir hitta ekki svona allan leikinn en að því sögðu þurfa íslensku bakverðirnir að bæta við sig snúningi í varnarleiknum.
– Annar leikhluti er hafinn og Norðmenn byrja með boltann.
 
Fyrsti leikhluti:
 
– Fyrsta leikhluta lokið, staðan 18-18 og íslenska liðið að komast á rétt og betra ról með hverri mínútunni eftir fimbulkaldar upphafsmínútur. KR-ingarnir Eyjólfur Ásberg og Þórir sprækir og Fjölnismaðurinn Árni Elmar að „spotta“ náungann vel upp.

– 18-18 Eyjólfur Ásberg jafnar metin eftir sóknarfrákast, flott innkoma hjá Eyjólfi þessar mínúturnar.
 
– 14-15 Eyjólfur Ásberg prjónar sig laglega í gegnum norsku vörnina en Norðmenn svara strax aftur með þrist og staðan 14-18, íslensku bakverðirnir verða að þétta raðirnar í varnarleiknum.
 
– Hér er Sveinbjörn Jóhannesson í Mutombo-gírnum í fyrsta leikhluta:
 
– 12-12 Þórir Þorbjarnar jafnar leikinn fyrir Ísland. 12-15 Norðmenn svara strax með þrist yfir íslensku vörnina.
 
– 9-12 Árni Elmar með aðra snyrtilega stoðsendingu og finnur nú Sveinbjörn Jóhannesson í teignum sem klárar vel. Rúmar fjórar mínútur eftir af fyrsta leikhluta.
 
– 7-9 Árni Elmar setur stökkskot í norska teignum, íslenska liðið er að skipta hægt og sígandi í baráttugírinn.
 
– 5-7 Árni Elmar með glæsilega sendingu niður á endalínu á Þóri sem læddi sér aftur fyrir norsku vörnina og lagði boltann snyrtilega í körfuna. Frábær sóknarflétta hjá íslenska liðinu.
 
– 1-7 Þórir Þorbjarnarson gerir fyrstu stig Íslands af vítalínunni.
 
– Norðmenn eru galvaskir í morgunsárið og hefja leikinn 7-0 á meðan íslenska liðinu eru nokkuð mislagðar hendur eins og t.d. að grípa ekki boltann og þar fram eftir götum.
 
– Byrjunarlið Íslands er: Árni Elmar Hrafnsson, Brynjar Karl Ævarsson, Jörundur Snær Hjartarson, Þórir Þorbjarnarson og Sveinbjörn Jóhannesson.
 
Fyrir leik:
 
– Íslenska liðið hafði góðan sigur á Eistum í gærkvöldi eftir mikinn baráttuleik. 
Fréttir
- Auglýsing -