Stjórnendur San Antonio Spurs hafa hingað til verið ófeimnir við að taka djarfar ákvarðanir bæði hvað leikmenn og þjálfun liðsins varðar, með Gregg Popovich þar í broddi fylkingar sem hugsar ávalt út fyrir kassann. Nýverið réðu þeir Ítalan Ettoro Messina í þjálfarateymið, sem er í sjálfu sér ekki djörf ákvörðun þar sem hann er fjórfaldur meistari í Euroleague deildinni og tvöfaldur þjálfari ársins þar. Hins vegar voru Spurs einnig að ganga frá samkomulagi við San Antonio Stars leikmanninn Becky Hammon um að ganga til liðs við þjálfarateymið.
Efasemdarmenn kalla þetta málamyndagjörning og að Becky sé ráðin til að líta vel út í fjölmiðlum. Fyrir mér er nóg að vita til þess að þetta var ákvörðun Popovich sjálfs. Hann er lítt gefinn fyrir sýndarmennsku en metur eljusemi og þekkingu þeirra sem vinna fyrir hann.
Rebecca Lynn Hammon er 37 ára leikmaður WNBA liðsins San Antonio Stars en hún hafði gefið það út að að yfirstandandi leiktíð lokinni myndi hún leggja skóna á hilluna og einbeita sér að þjálfun. Hún er bandarísk/rússneskur ríkisborgari og hefur m.a. leikið með rússneska landsliðinu á Ólympíuleikunum 2008 og 2012. Hammon mun því hafa leikið 16 tímabil í WNBA deildinni þegar hún hættir núna í haust, fyrst með New York Liberty og síðustu átta ár með Stars.
Hammon eyddi miklum tíma með þjálfarateymi og liði Spurs á síðstu leiktíð NBA deildarinnar. Sat æfingar, liðsfundi og þjálfarafundi í einhverju sem hún hefur sjálf kallað “starfsþjálfun”.
“Eftir að hafa fylgst með henni með liðinu á síðustu leiktíð, er ég sannfærður um að þekking hennar, vinnusemi og samskiptaeiginleikar muni koma Spurs að mjög góðum notum,” er haft eftir Gregg Popovich. Hammon tjáði fjölmiðlum að Pop hafi tekið það skýrt fram við hana að ráðning hennar hafi eingöngu með þekkingu hennar og færni að gera en ekkert með kynferði hennar.
Ráðning Hammon markar viss þáttaskil í sögu NBA deildarinnar en aldrei áður hefur kvenmaður gegnt fullu starfi sem þjálfari af nokkru tagi. Lisa Boyer var í þjálfarateymi Cleveland Cavaliers árið 2000-2001 en aðeins í sjálfboðastarfi.
Þátttaka kvenna í starfi NBA liða hefur verið lítil í gegnum tíðina. Nancy Lieberman þjálfaði Texas Longhorns í NBDL deildinni og Natalie Nakase sem hefur verið í myndbandsgreiningarteymi LA Clippers var aðstoðarþjálfari Clippers í sumardeildinni.
Það er því von að þessi ákvörðun Spurs muni ryðja veginn fyrir hæfa kvenþjálfara til að láta til sín taka í NBA deildinni. Menning Spurs liðsins er fullkomin til að láta þetta ganga upp því í San Antonio liðinu eru fagmenn í hverri stöðu sem bera virðingu fyrir þjálfurum sínum og samstarfsfólki.
Margir hafa glaðst með Hammon á Twitter eftir þessi tíðindi, eins og fótboltakonan Hope Solo, WNBA stjörnurnar Skylar Diggins og Swin Cash auk þess sem Eva Longoria, fyrrverandi eiginkona Spurs leikmannsins Tony Parker sendi Hammon þessi skilaboð.
Congrats to @BeckyHammon for being the 1st female asst coach in the NBA! I love Pop for being progressive and recognizing Becky’s talent!
— Eva Longoria (@EvaLongoria) August 5, 2014