Batnandi heilsa og blússandi gangur í Garðabænum

Valsmenn gleymdu að taka hnífana með til Keflavíkur í þriðju umferð deildarinnar svo stigunum var rænt af þeim í blálokin. Að öðru leyti er allt í blóma í Valshreiðrinu, 6 stig komin í hús af 8 mögulegum. Um liðið má segja að heildin er annað og meira en sérhver hluti hennar en það einmitt einkennir góð lið. 

Sama má kannski segja um gestina úr Garðabænum. Það hefur verið áberandi góður andi yfir liðinu nú í byrjun tímabils. Hins vegar reynir full mikið á ákveðna hluta heildarinnar hjá Stjörnumönnum vegna meiðsla lykilmanna. Er meiðslalistinn eitthvað að styttast? Á Stjarnan einhvern séns í kvöld?

Kúlan: Í Kúlunni birtist Þrumu-Þór í krummafót, illilegur og ósáttur á svip. Það merkir að Ægir verður ekki alveg jafn stórkostlegur og undanfarið – heimamenn hirða því stigin þrátt fyrir mikla baráttugleði Garðbæinga. Lokatölur verða 89-78.

Byrjunarlið

Valur: Jefferson, Kiddi, Frank Aron, Monteiro, Kristó

Stjarnan: Ægir, Júlíus, Ellisor, Kanervo, Kone

Gangur leiksins

Ánægjulegt var að sjá Kone í byrjunarliðinu fyrir gestina og þeir byrjuðu ljómandi með 7 fyrstu stigum leiksins. Valsarar jöfnuðu það og gott betur, svöruðu með 11 í röð. Valsmenn héldu nokkurra stiga forystu fram að blálokum fyrsta leikhluta en Ægir jafnaði með skoti frá miðju á klukkunni! 24-24 eftir einn.

Valsmenn náðu ágætis stjórn á leiknum í öðrum leikhluta. Hlíðarendapiltar sættu sig við ekkert minna en þrjú stig í hverri sókn, einkum með körfu góðri og víti, en einnig einum og einum þristi. Eftir um 3 mínútna leik í fjórðungnum leiddu heimamenn 38-26, 14-2 sprettur. Stjörnumenn voru svolítið að klaufabárðast sóknarlega og tæplega hefur Arnar verið sáttur með varnarleikinn. Gestirnir bitu þá í skjaldarendur og börðu frá sér, Ægir minnkaði muninn í aðeins 4 stig, 44-40 undir lok fjórðungsins en Monteiro jafnaði það út með síðasta skoti fyrri hálfleiks. Staðan 47-40 í hléi. Jefferson spilaði mjög vel, var kominn með 17 í hálfleik, Ægir 11 fyrir Stjörnuna.

Gestirnir komu beittir til seinni hálfleiks og Ægir jafnaði leika í 47-47 með neyðarskoti sem fór næstum því yfir spjaldið en endaði einhvern veginn ofan í. Stjörnusprettinum var ekki lokið og Júlíus kom sínum mönnum í 47-52 með þristi, 7:36 eftir af þriðja og Finnur blés til leikhlés. Það virtist hafa skilað sínu, Valsmenn áttu enn eitt áhlaupið í leiknum og leiddu 55-54 þegar góðar 4 mínútur voru eftir af þriðja. Best er að ræða ekki í löngu máli restina af leikhlutanum, ekki beint glæsilegur körfubolti, en að honum loknum leiddu gestirnir með tveimur, 59-61.

Varnarleikur Stjörnumanna varð betri eftir því sem á leið leikinn og þannig hefur það verið hjá liðinu á þessu tímabili. Lítið gekk hjá heimamönnum sóknarlega og nánast ekkert að frétta að tveimur þristum undanskildum frá Jefferson. Gestirnir fengu hins vegar stig frá ýmsum áttum, Kanervo og Júlli hentu hvor sínum þristinum niður og skyndilega var Stjarnan komin 10 yfir, 61-71. Heimamenn klóruðu í bakkann en þegar um 4 mínútur lifðu leiks henti Tommi niður risastórum þristi og staðan 73-81. Risastór var hann því ekkert var skorað fyrr en tæpar 2 mínútur voru eftir – þá höfðu Stjörnumenn hámað í sig fjölda sóknarfrákasta og loksins skilaði það stigum með góðri körfu frá Júlíusi. Staðan var þá 73-83 og tíminn ansi naumur fyrir Valsara. Heimamenn voru langt frá því að hleypa spennu í leikinn, settu aðeins 4 stig það sem eftir lifði leiks og lokatölur urðu 77-86. Stjörnumenn komnir með 4 sigurleiki í röð í deild og bikar!

Menn leiksins

Ægir hefur greinilega lagað skóbúnað sinn fyrir leik, endaði með 16 stig, fína skotnýtingu, 5 fráköst og 6 stoðsendingar! Að þessu sinni má þó segja að sigurinn í kvöld hafi verið góður liðssigur, 6 leikmenn skoruðu 9+ stig og vörnin var mjög góð, einkum í seinni hálfleik.

Jefferson var stigahæstur Valsara með 25 stig og tók 5 fráköst. 17 stiganna komu í fyrri hálfleik en hann var ekki einn um það að basla gegn Stjörnuvörninni í seinni hálfleik.

Kjarninn

Stjörnumenn eru á blússandi siglingu, Kone er kominn aftur og Ellisor að komast betur inn í leik liðsins. Í stuttu máli eru meira og minna allir að skila sínu nú í byrjun tímabils. Verður liðið í toppbaráttu í vetur?? Það er stóra spurningin.

Það kæmi á óvart verði Valsmenn ekki í toppbaráttu. Liðið spilaði hins vegar einfaldlega ekki nógu vel í kvöld. Þó Kári sé ekki 100% og Hjálmar frá í kvöld vegna meiðsla getur og verður liðið að gera betur. Undirrituðum fannst stemmningin í liðinu vera í takti við stemmninguna í húsinu…sem var ekki beint æsileg. Vissulega er nóvember, 5. umferð og allt það…en öll lið þurfa stuðningsmenn, ekki glory-höntera!

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)