spot_img
HomeNeðri deildir2. deild karlaBarningur í Breiðholtinu

Barningur í Breiðholtinu

Aþena/Leiknir bar sigur úr býtum gegn Uppsveitum í gærkvöldi

Eins og við var búist var mikil stemming í Austurberginu þegar Uppsveitir sóttu Aþenu/Leiknir heim. Stuðningsmannasveit Leiknis ‘Sjötti maðurinn’ lét vel í sér heyra allan tímann og er ljóst að um þessar mundir á sér stað mikil körfuboltauppsveifla í Breiðholtinu.

Leiknir setti tóninn strax í upphafi og skoraði 6 fyrstu stig leiksins, Uppsveitir bitu þó frá sér og náðu að jafna leikinn í stöðunni 8-8. Í framhaldinu átti fyrsta áhlaup Leiknismanna sér stað en með 10-2 kafla var staðan orðin 18-10 og heimamenn komnir skrefinu á undan. Þorbegur Ólafsson hélt uppteknum hætti frá því í síðasta leik og var strax kominn með 2 þrista langt utan af velli. Hann og Þröstur sem skoraði 7 stig í leikhlutanum sáu aðallega um stigaskorun fyrir Leikni í fyrsta leikhlutanum meðan að Dagur og Halldór voru komnir með 5 stig hvor fyrir Uppsveitir. Staðan að fyrsta leikhluta loknum 22-18 Leikni í vil.

Uppsveitir byrjuðu annan leikhlutann á tveimur einföldum körfum og náðu að jafna leikinn í stöðunni 22-22. Eftir það kom annað og lengra áhlaup frá Leikni sem náði 19-2 kafla og þar með forskoti sem þeir létu ekki aftur úr hendi. Leikurinn einkenndist að mörgu leyti að nokkuð skilvirkum áhlaupum Leiknis sem voru Uppsveitum ofviða. Allir lögðu sitt á vogarskálarnar og strax í fyrri hálfleik voru 9 leikmenn Leiknis komnir á blað. Staðan að loknum fyrri hálfleiks 43-28 fyrir Leikni.

Leiknismenn hófu síðari hálfleik af krafti og kom forystunni fljótt í um 30 stig. Fimm þristar í leikhlutanum þar af þrír hjá Ingva og einfaldar körfur af blokkinni gerðu þar gæfumuninn og ljóst hvert í stefndi. Staðan að loknum þremur leikhlutum 69-40 Leikni í vil.

Fjórði leikhlutinn var því fyrst og fremst formsatriði og líkt og gengur í álíka stöðu var spilamennskan nokkuð villt hjá báðum liðum sem skiptust á körfum út leikhlutann. Þjálfari Leiknis manna “Lásinn” – skipti sér inn á þegar að um 6 mínútur voru eftir af leiknum og líkt og við var búast setti hann niður 4 stig, tók 4 fráköst og var með 2 stoðsendingar. Per 30 – gerir það ca 20 stig, 20 fráköst og 10 stoðsendingar sem er eilítið undir meðaltali en sleppur þó til. 

Það er því ljóst að Lurkabolti Leiknis sem kom Mosfellingum í opna skjöldu síðustu helgi heldur áfram að malla, enda liðið ósigrað á tímabilinu eftir þrjá sannfærandi sigra.

Stigaskor liða:

Leiknir: Þröstur 20, Guðjón 13, Vésteinn 11, Djammi 10, Ingvi 9, Þorbergur 8, Arnar Kári 7, Sæmundur ‚Lásinn‘ Hermannsson 4, Róbert 2 og Einar 1.

Uppsveitir: Halldór 14, Páll 13, Óðinn og Dagur 12, Pim 6, Ivan 2 og Matthías 1.

Í næstu umferð mun Aþena/Leiknir svo taka á móti liði Vestra sem jafnframt hefur verið spáð góðu gengi. Leikurinn verður næsta laugardag kl. 19:30 í Austurbergi.

Uppsveitir munu svo taka á móti Álftanesi B á Flúðum sunnudaginn 13. október.

Fréttir
- Auglýsing -