Keppni í ACB deildinni er lokið en Barcelona er Spárnarmeistari 2014. Börsungar höfðu 3-1 sigur á Real Madrid í einvíginu og hið fullkomna tímabil Madrídinga er orðið að eiginlegri martröð. Framan af fékkst ekki betur séð en að Madríd myndi taka sig til og sópa flest allt upp sem hægt væri að vinna í Evrópu en nú er annað komið á daginn. Fjórða viðureign liðanna fór fram í gærkvöldi þar sem Barcelona hafði 83-81 spennusigur.
Ante Tomic var stigahæstur hjá Barcelona í gær með 22 stig og 9 fráköst en Rudy Fernández gerði 13 stig og tók 3 fráköst í liði Real Madrid.
Þetta er í fjórða sinn sem Xavier Pascual gerir Barcelona að Spánarmeisturum og í þriðja sinn sem Juan Carlos Navarro er valinn besti leikmaður úrslitanna eftir sigur Barcelona. Með sigrinum náði Barcelona að saxa örlítið á titlaforystu Real Madríd en piltarnir úr höfuðborginni hafa unnið úrvalsdeildina á Spáni 31 sinni en titill Börsunga í gær var sá átjándi í röðinni. Aðeins sex félög á Spáni hafa unnið þann stóra.
Myndband frá sigri Börsunga í gær:
Mynd/ ACB: Juan Carlos Navarro leikmaður Barcelona var valinn besti leikmaður úrslitanna á Spáni.