Breiðablik tók á móti Skallagrími í kvöld í 1. deild í Smáranum og freisti þess að jafna liðin að stigum á töflunni. Fram að þessu höfðu Blikar sigrað tvo af síðustu fjórum leikjum sínum og skipti því miklu máli að verja heimavöllinn og sigra þennan leik. Skallarnir hins vegar sjóðheitir eftir sigur í síðust þremur leikjum og ljóst að Blikar myndur þurfa að hafa fyrir þessum leik.
Skallarnir byrjuðu að láta rigna fyrir utan þriggja stiga línuna þó þeir hafi ekki verið eins skilvirkir fyrir innan hana. Sóknarfráköstin þeirra 10 í 1. hluta gerðu þó gæfumuninn milli liðanna og náðu Skallarnir 4 stiga mun í lok fjórðungsins.
Blikar hertu nú varnarleikinn í 2. hluta og gáfu Sköllum ekkert eftir í fráköstunum. 6-0 sprettur hjá heimamönnum minnkaði muninn niður í 2 stig fyrir hálfleik og hörkuleikur í uppsiglingu.
Heimamenn í Breiðabliki skutu villt og galið í 3. hluta án þess að hitta neitt að ráði eða aðeins 26% í skotum utan af velli. Blikar héldu sér þó lifandi með sóknarfráköstum, 11 talsins. Skallagrímur var hins vegar mun skilvirkari í sókn og skoraði 1,34 stig per sókn í 3. hluta. Gestirnir juku þá muninn um önnur 7 stig áður en flautan gall í lok 3. hluta.
Síðustu 10 mínútur leiksins hafði einhver sett lok á Blikakörfuna því sama hvað Skallagrímur reyndi aðeins 3 af 16 skotum utan af velli rötuðu niður. Skilvirkni Skallagríms var orðin fráleit á þessum tímapunkti eða aðeins 0,59 stig per sókn og sóknarnýting upp á aðeins 25% í 4. hluta. Blikar færðu sóknarleik sinn nær körfunni með góðum árangri, þar sem skotin voru ekki að detta fyrir utan.
Blikum tókst að komast 1 stigi yfir þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum, en nær komust þeir ekki. Skallagrímur pakkaði teiginn og hleypti engum í gott færi. Skotin fyrir utan rötuðu sem fyrr ekki ofaní hjá Blikum. Davíð Ásgeirsson átti þá rándýran þrist eftir eina af 10 stoðsendingum Sigtryggs Arnars til að koma Sköllunum 2 stigum yfir og rúm mínúta eftir af leiknum. Sigtryggur lokaði svo leiknum á línunni með tveimur vítaskotum.
Mikilvægur 79-81 sigur Skallagríms staðreynd en með honum tryggði liðið sig í 3.-4. sæti á töflunni við hlið Þórs Akureyri sem sigraði Hamar í síðasta leik 7. umferðar.
Sigtryggur Arnar skoraði 23 stig og gaf 10 stoðsendingar fyrir Skallagrím en Jean Cadet fylgdi fast á eftir með 20 stig og 19 fráköst. Davíð Ásgeirsson bætti við 20 stigum. Hjá Blikum var Snjólfur Björnsson stigahæstur með 21 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar. Halldór Halldórsson bætti við 20 stigum og Snorri Vignisson fylgdi þar á eftir með 17 stig og 11 fráköst. Einvígi þeirra Sigtryggs Arnars og Snjólfs Björnssonar var hin mesta skemmtun.
Breiðablik-Skallagrímur 79-81 (16-20, 28-26, 17-24, 18-11)
Breiðablik: Snjólfur Björnsson 21/10 fráköst/7 stoðsendingar, Halldór Halldórsson 20/8 fráköst, Snorri Vignisson 17/11 fráköst, Sveinbjörn Jóhannesson 9/10 fráköst, Garðar Pálmi Bjarnason 4/6 fráköst, Ragnar Jósef Ragnarsson 3/4 fráköst, Sigurður Þórarinsson 3, Breki Gylfason 2, Ásgeir Nikulásson 0, Hafsteinn Guðnason 0, Bjarni Steinn Eiríksson 0, Matthías Örn Karelsson 0.
Skallagrímur: Sigtryggur Arnar Björnsson 23/8 fráköst/10 stoðsendingar, Davíð Ásgeirsson 20, Jean Rony Cadet 20/19 fráköst, Kristófer Gíslason 10/6 fráköst, Bjarni Guðmann Jónson 6, Þorsteinn Þórarinsson 2/5 fráköst, Guðbjartur Máni Gíslason 0, Einar Benedikt Jónsson 0, Hjalti Ásberg Þorleifsson 0, Atli Steinar Ingason 0, Kristján Örn Ómarsson 0, Atli Aðalsteinsson 0.
Mynd: Sigtryggur Arnar (Skallagrími) og Snjólfur Björnsson (Breiðabliki) háðu stórskemmtilegt einvígi sín á milli í kvöld. Sigtryggur hafði þó betur. (Hörður Tul.)