spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaBaráttusigur hjá Haukum heima gegn Njarðvík

Baráttusigur hjá Haukum heima gegn Njarðvík

Haukar tóku á móti Njarðvík í kvöld í mikilvægum leik fyrir bæði liðin. Haukar þurftu nauðsynlega á sigri að halda til að reyna klóra sig upp úr fallsæti og Njarðvík þurfti sömuleiðis að vinna til að rétta af flugið eftir að hafa tapað þremur af seinustu fjórum leikjunum sínum.

Leikurinn var spennandi framan af en þegar Njarðvík gat skyndilega ekki fundið körfuna í heilar fimm mínútur í lokaleikhlutanum sigldu Haukar sigrinum heim, 82-71.

Gangur leiksins

Í fyrsta leikhlutanum var ljóst að byrjunarlið Njarðvíkur var betur æft en byrjunarlið Hauka, enda var sóknarflæði gestanna grænklæddu mjög gott og þeir tóku fljótt forystu. Þegar varamenn fóru að skipta inn á þá náðu Haukar aðeins að laga stöðuna en aftur gátu Njarðvíkingar breikkað bilið þegar byrjunarliðsmenn þeirra komu aftur inn á.

Þegar Haukar fóru að spila meira saman og af meiri áfergju þá fóru hlutirnir að gerast sóknarlega hjá þeim í öðrum leikhlutanum. Þrátt fyrir nokkra hnökra um miðbik leikhlutans áttu heimamenn gott lokaáhlaup (10-1) seinustu tvær mínúturnar til að minnka muninn í aðeins 3 stig í hálfleik, 37-40.

Í seinni hálfleik héldu Haukar áfram að sækja í sig veðrið og náðu loks forystunni þegar rúmar þrjár mínútur lifðu af þriðja leikhlutanum. Einar Árni, þjálfari Njarðvíkur, var þá fljótur að taka leikhlé.

Stúkan í Ólafssal fór að taka við sér og Pablo Bertone var orðinn ansi heitur, með þrjá þrista og eitt sniðskot í leikhlutanum. Haukar gátu aukið muninn sinn aðeins meira og liðin fóru inn í lokafjórðunginn í stöðunni 61-57.

Njarðvík spilaði ágætlega fyrstu mínúturnar í lokaleikhlutanum en Haukar voru yfirleitt fljótir að svara körfu hjá gestunum með vel tímasettum þristi eða hraðaupphlaupi.

Síðan hrökk allt í baklás hjá Njarðvíkingum. Gestirnir skoruðu ekki körfu í heilar fimm mínútur á meðan að Haukar mjötluðu inn körfu hér og þar. Loks þegar Njarðvík setti aftur körfu voru tvær mínútur eftir og Haukar með sjö stiga forystu.

Haukar náðu að klára leikinn á æsispennandi lokamínútum þar sem Njarðvíkingar reyndu allt sem þeir gátu til að vinna. Lokastaðan 82-71.

Lykillinn

Lykillinn í kvöld var liðsheild Hauka. Framlagshæstur Hauka var Pablo Bertone með 19 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar en allt liðið small saman í kvöld til að ná þessum sigri. Breki Gylfason gaf þeim baráttu, Hansel Atencia gaf þeim hröð stig þegar á þurfti að halda og Jalen Jackson, eftir stopula byrjun, skilaði ágætu framlagi.

Hjá Njarðvík var Kyle Johnson bestur með 20 stig, 8 fráköst, 3 stoðsendingar og 3 stolna bolta.

Tölfræði lýgur ekki

Einn mikilvægasti tölfræðiþáttur þessa leiks hlýtur að vera fráköst og stig skoruð eftir sóknarfráköst. Haukar rifu niður 50 fráköst í leiknum gegn aðeins 37 hjá Njarðvík og skoruðu 20 fleiri stig úr sóknarfráköstum.

Kjarninn

Haukar fundu leikgleðina í þessum leik með baráttu og brosmildi eftir að þeir höktu aðeins í gang í byrjun. Þeir eygja enn von með að halda sér uppi með svona liðssigri þar sem allir tóku á því sem ein heild.

Njarðvíkingar voru óheppnir að fá meinloku í lokafjórðungnum á ögurstundu, en þeir verða að hrista þennan ósigur af sér og ná sér réttum fyrir næstu leiki ef þeir vilja ekki detta úr úrslitakeppnissæti.

Fréttir
- Auglýsing -