Njarðvík vann í kvöld mikilvægan sigur á Þór Akureyri í Domino´s-deild karla. Lokatölur voru 97-75 Njarðvík í vil og því skiptust liðin á að vinna hvert annað með 22 stiga mun. Þór er þó áfram ofan við Njarðvík í deildinni með 16 stig í 8. sæti deildarinnar en Njarðvík með 14 stig í 9. sæti. Rodney Glasgow og Kyle Johnson gerðu báðir 24 stig í liði Njarðvíkur í kvöld en atkvæðamestur hjá gestunum í Þór var Ivan Alcolado með 22 stig og 14 fráköst.
Hvað varðar stöðuna hjá Njarðvík og Þór eftir 20 umferðir þá hefur Þór vissulega tveimur stigum meira í deildinni en Njarðvíkingar. Liðin hafa unnið hvert annað með 22 stiga mun og því er staðan í innbyrðisviðureignum liðanna að Njarðvík hefur betur því á milli þeirra telur heildarstigamunur í deildinni. Heildarskor Njarðvíkur er -52 stig en heildarskor Þórsara -141. Til þess að þessi útreikingur komi Njarðvíkingum að gagni þurfa þeir hið minnsta að jafna Þór að stigum í töflunni.
Þórsarar byrjðu betur og komust í 6-11 þegar tæpar fimm mínútur voru liðnar af leiknum. Á þeim tímapunkti kom Júlíus Orri inn af bekk Þórsara í fyrsta sinn síðan í fyrstu umferð deildarinnar. Ánægjulegt að sjá þennan öfluga Þórsara mættan í slaginn á nýjan leik. Þórsarar leiddu svo 20-24 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Srdan var með 7 stig í liði gestanna en Glasgow 8 komandi af Njarðvíkurbekknum.
Liðunum gekk lítið að skora framan af öðrum leikhluta, eftir 15 mínútna leik leiddu Þórsarar 22-28 og heimamenn í Njarðvík búnir að senda ófá skotin á loft sem voru allt annað en líkleg til árangurs. Jón Arnór Sverrisson jafnaði leikinn 30-30 þegar rúmar þrjár mínútur voru til hálfleiks. Njarðvík lokaði næstu þremur mínútum 10-6 og staðan því 40-36 í hálfleik. Sterkur lokakafli heimamanna á fyrri hálfleik þar sem þeir héldu gestunum í 12 stigum með sterkum varnarleik. Stigahæstur hjá Njarðvík var Rodney Glasgow með 12 stig í hálfleik en Ivan með 10 í liði Þórsara.
Það lifnaði allverulega yfir sóknarleik beggja liða í upphafi síðari hálfleiks, Ivan reyndist Njarðvíkingum erfiður en Kyle Johnson kom Njarðvík í 57-48 með góðum þrist þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Það var svo Maciej Baginski sem átti lokaorðið fyrir Njarðvík í þriðja leikhluta þegar hann smellti þrist og heimamenn leiddu 68-61 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Heimamenn opnuðu fjórða leikhluta með látum og komust í 75-61 eftir þrist frá Jóni Arnóri þegar sjö og hálf mínúta voru til leiksloka, við þetta tók Bjarki leikhlé fyrir gestina að norðan sem höfðu ekki fundið sig í varnarleiknum til þessa í síðari hálfleik. Að sama skapi voru heimamenn að herða tökin verulega á varnarendanum.
Kyle Johnson var að finna sig vel í síðari hálfleik og um miðjan fjórða leikhluta gerði hann fimm stig í röð fyrir Njarðvíkinga og jók muninn í 83-67. Þegar 23 sekúndur lifðu leiks misstu gestirnir boltann og Njarðvík tók leikhlé, þá var staðan orðin 95-75 Njarðvík í vil og athyglisverð staða komin upp, möguleiki fyrir Njarðvík á að hrifsa til sín innbyrðisviðureignina þar sem Þór vann fyrri leikinn með 22 stiga mun.
Margir biðu spenntir að sjá hvað heimamenn myndu gera við síðustu 23 sekúndur leiksins. Gestirnir úr Þór komu til vallar eftir leikhlé og höfðu þá sett alla erlendu leikmenn sína á bekkinn sem greinarhöfundi fannst afar athyglisvert svo ekki sé meira sagt.
Njarðvík tók slakt þriggja stiga skot í næstu sókn en Hester náði sóknarfrákastinu og kom Njarðvík í 97-75 og þar með lokatölur leiksins. Njarðvík náði þar með að kvitta fyrir 22 stiga tap gegn Þór í fyrri umferðinni og liðin bæði með sitthvorn 22 stiga sigurinn en heildarstigamunur liðanna í deildarkeppni gefur Njarðvík vinningin ef til útreiknings á innbyrðisviðureignum liðanna kemur til sögunnar.
Barátta heimamanna í varnarleiknum var lykillinn að sigri kvöldsins en þeir Kyle og Rodney voru einnig mjög sprækir á sóknarendanum. Hester bætti við tvennu með 14 stig og 12 fráköst en hjá Þór var Ivan Alcolado með 22 stig og 14 fráköst. Srdan og Dedrick gerðu svo báðir 17 stig fyrir Þór en gestirnir fengu aðeins 5 stig af bekknum í kvöld á meðan heimamenn í Njarðvík fengu 30 stig af bekknum sínum.
Gangur leiks:
6-11, 18-21, 20-24. 22-28, 30-30, 40-36 47-43, 63-58, 68-61 75-65, 87-71, 97-75.