spot_img
HomeNeðri deildir2. deild karlaBaráttan um Breiðholtið: Leiknir lék á alls oddi í Skógarselinu 

Baráttan um Breiðholtið: Leiknir lék á alls oddi í Skógarselinu 

Á laugardagskvöld tók ÍR-b á móti Aþenu/Leikni í Skógarseli. Fyrir leikinn hafði Leiknir sigrað alla leiki sína á tímabilinu fyrir utan einn og sátu ásamt Kr-b og Fylki í fyrsta sæti deildarinnar. ÍR hafði aftur á móti tapað öllum sínum leikjum og því ljóst að um nokkra brekku gæti verið að ræða fyrir heimamenn. 

ÍR-ingar hófu leikinn af krafti og skoruðu fyrstu 5 stig leiksins. Um miðbik leikhlutans kom mjög snöggur 11-0 kafli hjá Leiknis mönnum með þremur þristum frá Ingva og Guðjóni. Með honum náðu Leiknis menn forystu í leiknum sem þeir svo byggðu ofan á jafn og þétt það sem eftir lifði leiks. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 20-17 Leikni í vil – en ljóst var að ÍR-ingar ætluðu að berjast almennilega um Breiðholtið.

Jafnræðið sem hafði verið með liðunum í fyrsta fjórðung fauk út um veður og vind í öðrum leikhluta sem var algjör einstefna Leiknismanna – án þess þó að þeir hafi sett gífurlegan fjölda stiga á töfluna. Þar var það vörn Leiknis manna, oft kennd við Lurkaboltann víðfræga, sem reyndist feikna sterk og náðu ÍR menn eingöngu að skora eina körfu allan leikhlutann. 10 leikmenn Leiknis höfðu þegar komist á blað í fyrri hálfleiknum og staðan að honum loknum 37-20. 

Síðari hálfleikur hófst svo á tveggja mínútna stigaregni frá Leikni sem tók annan 11-0 kafla og komu muninum þar með upp í 28 stig. Liðin skiptust svo á körfum það sem eftir lifði leikhlutans og var staðan fyrir þann fjórða 62-32 fyrir Leikni. 

Fjórði leikhlutinn hófst svo á stærsta áhlaupi Leiknis til þessa með 12-0 kafla. Eins og gengur í leikjum sem þessum var spilamennska beggja liða orðin fremur frjálsleg og leikurinn hraður. Leiknir settu alls 7 þrista í síðasta fjórðungnum sem þeir skiptu bróðurlega á milli sín. Lokatölur 93-46 og því ljóst að um sinn geta Leiknismenn leikið lausum hala um efra og neðra Breiðholtið.

Stigaskor:

Hjá heimamönnum dreifðist stigaskorið – Birgir 15, Atli 8, Arnar 7, Sigurður 6, Jónas 5, Baldur 3 og Óliver 2. 

Hjá gestunum var Ingvi atkvæðamestur með 19 stig, Vésteinn 14, Elvar og Guðjón 11 hvor, Haffi 10, Tetz 9, Arnar Kári 6, Þröstur og Róbert 4, Djammi 3 og Einar 2. 

Greiningardeildin

Erfitt er fyrir Greiningardeild Karfan.is að draga stórar ályktanir út frá þessum leik, leikurinn búinn um miðbik þriðja leikhluta og tölfræðin eftir því. Nokkrir þættir sem þó helst standa upp úr:

  • – Lurkaboltinn heldur áfram að hrella lið eftir lið – þéttingsföst vörn þar sem ekkert er gefið eftir og sóknarleikur sem býður upp á bland af hörku undir körfunni sem og þristaregni þegar færi gefst. Tróna nú Leiknismenn efstir í +/- ásamt sterku liði Fylkis með +115: bæði lið eru þar með að vinna leiki að meðaltali með rúmlega 16 stigum. 
  • – Leiknismenn tróna nú einir á toppi 2. deildarinnar eftir að KR höfðu betur gegn liði Vestra í Vesturbænum. Þó er ljóst að baráttan um efstu sætin í deildinni verður blóðug þar sem eftir liðir tímabils – þar sem KR-ingar, Vestri, Fylkir og Leiknir munu skiptast á kjaftshöggum við hvert tækifæri. 
  • – Áhugavert er að sjá að 11 menn Leiknis (af 12 á skýrslu) komust á blað – sem sýnir breidd liðsins í ár. Er þetta sérstaklega athyglisvert í ljósi meiðslaskýrslu liðsins sem var send út á fréttamenn fyrir leik: Tómas Tómasson, Þorbergur Ólafsson, Lásinn & Halldór Halldórsson eru sem sakir standa allir fjarri góðu gamni. 
Fréttir
- Auglýsing -