Íslands- og bikarmeistarar KR hafa ÍR í hreðjataki. Liðin hafa mæst þrívegis í vetur að Lengjubikarnum meðtöldum og hefur KR alls unnið þessa leiki með 89 stiga mun, fyrst 12 stiga sigur, í öðrum leiknum kom 36 stiga sigur og í kvöld þegar liðin mættust í baráttunni um borgina hafði KR 41 stigs sigur gegn ÍR! Breiðhyltingar voru eins og byrjendur í kvöld gegn ákveðnum KR-ingum þar sem allir í röndóttu komust á blað en eini með lífsmarki í liði ÍR-inga var Kristinn Jónasson.
Liðunum gekk illa að skora á upphafsmínútum leiksins en KR-ingar höfðu þó ávallt frumkvæðið og komust í 4-0 eftir glæsilegt samspil Martins Hermannssonar og Dejan Sencanski sem endaði með magnaðri troðslu þess síðarnefnda. Vörn KR-inga var þétt í fyrsta leikhluta og ÍR átti í mesta basli með að finna leið upp að körfunni. Reynslubolti eins og Nemanja Sovic var að láta hanka sig á grunnreglunum, var að missa boltann þegar dæmt var á hann skref og síðar sóp. En það fór að ganga aðeins betur hjá ÍR þegar Kristinn Jónasson kom inn í liði Breiðhyltinga. KR leiddi svo 24-16 að loknum fyrsta leikhluta.
Áður en við lofum frammistöðu Íslands- og bikarmeistara KR í öðrum leikhluta verður fyrst að lasta þá frammistöðu sem ÍR-ingar buðu uppá. Bláir hreinlega koðnuðu niður í leikhlutanum, voru eins og byrjendur á vellinum og KR stakk af. Skipti engu máli hver kom inn á í liði röndóttra, allir voru að skila sínu og tíu liðsmenn KR voru komnir á blað í hálfleik og þeirra atkvæðamestur Dejan Sencanski með 10 stig.
Framlag ÍR-inga í öðrum leikhluta var afleitt, engin stemmning í hópnum, allt gert með hangandi hendi og KR þurfti ekki einu sinni að sýna sparihliðarnar, eftir fyrstu 15 mínúturnar í kvöld var þetta einungis spurning um að hinkra og sjá hversu stór munurinn yrði í lokin.
Dejan Sencanski var eins og áður greinir með 10 stig í fyrri hálfleik og tíu liðsmenn KR komust á blað en hjá ÍR var Kristinn Jónasson eini með lífsmarki og gerði 9 stig.
Eins og gefur að skilja varð síðari hálfleikur aldrei spennandi. Kristinn Jónasson hélt áfram að reyna að blása lífi í liðsmenn ÍR en þeir voru löngu búnir að kasta inn handklæðinu. Að sama skapi mátti auðsjáanlega merkja að KR var ekki í fimmta gír, þeir þurftu þess einfaldlega ekki og sigldu að lokum inn í öruggan 112-71 sigur! Baráttan um borgina stóð því í um það bil 15 mínútur eða svo.
Sex leikmenn KR gerðu 10 stig eða meira í leiknum og þeirra stigahæstur var Joshua Brown með 21 stig, Dejan Sencanski með 15 stig og Robert Ferguson með 14 stig. Hjá ÍR var Kristinn Jónasson langbesti maður liðsins með 19 stig og barðist allr þær mínútur sem hann spilaði en þeir félagar Nemanja Sovic, Robert Jarvis og James Bartolotta verða að undirgangast ítarlega naflaskoðun á næstunni enda frammistaða þeirra í kvöld ekki atvinnumönnum sæmandi. Vissulega léku ÍR-ingar án Níels Dungal í kvöld og er það skarð fyrir skyldi, það skarð ber þó ekki 41 stig!