spot_img
HomeFréttirBaráttan hefst í kvöld

Baráttan hefst í kvöld

12:15 

{mosimage}

 

 

Keflavík og Haukar hefja í kvöld baráttu sína í úrslitum Iceland Express deildar kvenna í körfuknattleik. Íslandsmeistarar Hauka hafa heimavallarréttinn í keppninni og því fer fyrsti leikurinn fram að Ásvöllum í Hafnarfirði. Leikurinn hefst kl. 19:15 í kvöld og má búast við mögnuðu einvígi tveggja sterkustu liða landsins.

 

Haukar lögðu ÍS 3-2 í undanúrslitum en Keflavík hafði betur 3-1 gegn stöllum sínum úr Grindavík. Haukar og Keflavík mættust einnig í úrslitum í fyrra þar sem Haukar sópuðu silfrinu upp í fangið á Keflavík með því að vinna seríuna 3-0. Víkurfréttir ræddu við fyrirliða liðanna, þær Birnu Valgarðsdóttur og Helenu Sverrisdóttur. Helena er jafnan talin einhver besta körfuknattleikskona landsins og Birna sú reynslumesta. Þær Helena og Birna munu vafalítið elda saman grátt silfur í kvöld og í næstu rimmum og geta körfuknattleiksunnendur strax farið að láta sér hlakka til leikjanna ef þeir verða eitthvað í líkingu við bikarleik félaganna fyrr á þessari leiktíð.

 

Birna Valgarðsdóttir, Keflavík

,,Þetta leggst vel í mig og það er búinn að vera stígandi í okkar leik. Það er ekki í boði að þessu sinni að láta sópa sér inn í sumarið og þetta verða hörkuleikir. Þó Haukar hafi betur innbyrðis gegn okkur þá er úrslitakeppnin allt önnur keppni en deildarkeppnin. Haukar eru með mjög gott varnarlið en við erum sterkari inni í teig og þann styrkleika verðum við að notfæra okkur. Til þess að verða Íslandsmeistarar þurfum við að vinna að Ásvöllum en það hefur engu liði tekist í um síðustu 25 leikjum Hauka í Hafnarfirði. Varðandi meiðslin mín þá verður maður bara að bíta á jaxlinn og ekki spá í meiðslunum núna. Ég læt þetta ekkert trufla mig á meðan hnéð er í góðu lagi heldur bara keyri á því áfram,” sagði Birna en fyrir úrslitakeppnina var talið ólíklegt að hún yrði með í keppninni. Annað hefur komið á daginn og hefur Birna verið að leika fantavel fyrir Kefalvík í síðustu leikjum.

 

{mosimage}

 

Helena Sverrisdóttir, Haukar

,,Liðin bæði eru mjög góð og jöfn og búast má við hörkuleikjum. Það er alls engin þreyta í okkur og við undirbjuggum okkur vel fyrir þessa úrslitakeppni. Við erum með frábæran heimavöll þar sem við erum með 25 sigurleiki í röð. Mér finnst Keflavík og Haukar spila svipaðan bolta, bæði lið leika hratt og hafa gaman af því að pressa og hleypa þessu upp í smá brjálæði. Nú er enginn þreyttur því við höfum allt sumarið til að hvíla okkur.

En hvað fannst Helenu um ummæli Jóns Halldórs, þjálfara Keflavíkur, um að ÍS myndi mæta Keflavík í úrslitum en ekki Haukar? ,,Það er alltaf gaman þegar þjálfarar eru svona vissir í sinni sök og bara gaman að skella þessu í andlitið á þeim til baka,” sagði Helena en Haukar völtuðu yfir ÍS í oddaleiknum og ekki laust við að ummæli Jóns hafi verið þeim ofarlega í huga á þeirri stundu.

 

Fyrsti leikur liðanna fer fram í kvöld í Hafnarfirði kl. 19:15 en annar leikurinn fer fram í Keflavík á laugardag kl. 16:00. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki verður Íslandsmeistari.

 

www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -