Liðin sem mættust í undanúrslitum Dominos deildarinnar á síðasta tímabili endurtóku rimmu sína á Ásvöllum í kvöld. Fyrrnefnda rimmu sigraði Tindastóll 3-1 en Haukar höfðu sigur fyrr á þessu tímabili þegar liðin mættust á Sauðárkróki. Búast mátti við hörkuleik og það var heldur betur raunin.
Eitt helsta umræðuefni körfubolta áhugafólks síðustu vikuna er möguleg brottvísun og ágæti Jerome Hill. Hann ákvað að byrja leikinn með að setja sjö fyrstu stig Tindastóls og gjörsamlega leika sé að vörn Hauka.
Það voru einmitt gestirnir sem voru betri framan af fyrsta leikhluta sem einkenndist aðallega af góðri vörn. Bæði lið voru að tapa mikið af boltum og gera klaufaleg mistök, alls voru tapaðir boltar 14 í fjórðungnum og þar af átta hjá Tindastól. Góð rispa Kára Jónssonar í lok fjórðungsins fyrir Hauka kom muninum niður í eitt stig og mátti eiga von á miklum spennuleik.
Haukar voru alltaf rétt á eftir gestunum og gekk erfiðlega að ná forystunni, munurinn var samt aldrei meiri en fimm stig. Emil Barja fór að sýna sitt rétta andlit með stórum skotum og frábærum sendingum. Sóknarleikurinn var ögn betri hjá Tindastól í öðrum leikhluta og virtist skynsemin vera með þeim í liði.
Tvær góðar lokasóknir gestanna kom muninum í sex stig 34-40 fyrir hálfleikinn. Skotnýting Hauka var slök og sérstaklega fyrir utan þriggja stiga línuna. Því var helst að kenna fyrir að munur liðanna var ekki minni en raun bar.
Haukar mættu alveg dýrvitlausir í seinni hálfleikinn, spiluðu aggressívt og settu átta fyrstu stig leikhlutans. Saga fyrstu þriðju leikhlutanna var samt að ef Haukar komust yfir náði Tindastóll fjórum stigum í röð á mettíma. Brandon Mobley datt einnig í gírinn og hitti nánast úr öllum sínum skotum.
Tindastóll skipti yfir í svæðisvörn þegar Haukar komust yfir við byrjun seinni hálfleiks. Það gerði Haukum auðveldara fyrir að finna sínar fínu þriggja stiga skyttur og má segja að vörn gestanna hafi trekt þá í gang. Haukar komust mest í sjö stiga forystu en skagfirðingar gáfust ekki upp og minnkuðu munin í fjögur stig fyrir lokafjórðunginn.
Stemmningin virtist vera í liði með heimamönnum í upphafi fjórða fjórðungs en Tindastóll virtist samt alltaf geta komið boltanum í körfuna. Frá miðbiki leikhlutans til loka skiptust liðin á að hafa forystuna og var spennan mikil.
Svæðisvörn Hauka small saman þegar þrjár mínútur voru eftir og náði þrem frábærum stoppum og munurinn skyndilega orðin átta stig. Skagfirska sveiflan var þó ekki á því að gefa leikinn því þeir voru fljótir að setja fimm stig og minnka muninn í eina sókn. Tindastóll færði leikinn í hendurnar á Haukum í lokinn þegar þeir skildu ítrekað góða skotmenn eftir lausa og gáfu þeim einfaldar körfur.
Þriggja stiga munur var á liðinum þegar hálf mínúta var eftir, klaufaskapur Tindastóls gaf Haukum þrjú tækifæri á körfu og gríðarlegan tíma. Að lokum fór Finnur Atli á vítalínuna þegar ellefu sekúndur voru eftir og setti annað vítið, munurinn því fjögur stig og Tindastóll með boltann. Við tók illa útfærð sókn hjá Tindastól og tækifæri þeirra fjaraði út, lokatölur 79-76 Haukum í vil.
Sterkur sigur Hauka því í kvöld, sýndu þeir baráttu og sigurlöngun sem ekki hefur sést í síðustu leikjum liðsins. Þetta á ekki að hafast hjá Tindastól en liðið tapar nú þriðja leiknum í röð með minna en fimm stiga mun. Skynsemin sem Tindstóll hafði framan af leik hvarf eins og dögg fyrir sólu þegar mest á reyndi og geta þeir að miklu leiti sjálfum sér um kennt. Hjá þeim voru þeir Jerome Hill og Darrel Lewis atkvæðamestir en nokkuð vantaði uppá framlög frá öðrum leikmönnum þegar virkilega á því þurfti.
Frétt kvöldsins er aftur á móti að Emil nokkur Barja er snúinn aftur, eða allavega sá Emil sem við könnumst við. Hann var frábær hjá Haukum með 16 stig, átta fraköst og sex stoðsendingar. Haukar fengu einnig frábæra sendingu í Brandon Mobley sem skilaði sterkri tvöfaldri tvennu eða 20 stig og 13 fráköst. Haukar þurftu nauðsynlega á þessum sigri að halda eftir fimm töp í röð í janúar. Þetta gæti gefið þeim sjáfstraust og trú á eigin gæði og eru fá lið sem standast þeim snúninginn ef þeir finna taktinn.
Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson – @Olithorj
Myndir / Axel Finnur Gylfason