Skallagrímur verður án bandarísks leikmanns það sem eftir lifir tímabils í Dominos deild kvenna en Brianna Banks hefur yfirgefið félagið. Þetta staðfestir formaður meistaraflokksráðs kvenna í samtali við Körfuna.
Banks kom til liðsins um áramót og tók þá við að Bryesha Blair. Banks lék sjö leiki og var með 15,4 stig að meðaltali í leik á 33 mínútum. Hún var ekki með liðinu í tapinu gegn Haukum í gær.
Samkvæmt Ragnheiði Guðmundsdóttur sem situr í meistaraflokksráði kvenna hjá félaginu hafði leikmaðurinn gerst sek um samningsbrot. Í framhaldi af því hafi leikmaðurinn sjálfur óskað eftir af rifta samningnum við Borgnesinga. Stjórnin hafi orðið við þeirri bón enda geta litlar breytingar orðið á stöðu liðsins í töflunni.
Skallagrímur situr í sjöunda sæti Dominos deildar kvenna með 12 stig þegar sjö umferðir eru eftir af deildinni. Tíu stig eru í fallsætið þar sem Blikar eru með einn sigur.
Nokkrar breytingar hafa orðið á liðinu en Biljana Stankovic tók við liðinu í desember síðastliðin. Samkvæmt Ragnheiði er mikil ánægja með hana og bjartsýni á að geta byggt upp kvennaliðið áfram með hana í brúnni. Mikil aukning sé í iðkenndafjölda stúlkna hjá félaginu og sé stutt í að efnilegir heimamenn geri sig gildandi í meistaraflokki liðsins.