spot_img
HomeFréttirBaldur Ingi stígur til hliðar

Baldur Ingi stígur til hliðar

Baldur Ingi Jónasson, þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í Domino's deild kvenna, hefur ákveðið að stíga til hliðar og segja starfi sínu lausu. Þetta staðfesti körfuknattleiksdeild Stjörnunnar við Karfan.is fyrr í dag.

 

Baldur Ingi kom til Stjörnunnar síðastliðið vor og tók við þjálfun kvennaliðs félagsins sem þá hafði tryggt sér sæti í úrvalsdeild á yfirstandandi leiktíð. Árangur liðsins hefur hins vegar ekki verið í samræmi við væntingar en það situr í næstneðsta sæti deildarinnar í fallbaráttu við Hamar.

 

Kvennalið Stjörnunnar hefur tapað 9 af síðustu 10 leikjum sínum og þar af síðustu 3 heimaleikjum sínum. Liðið hefur einnig ekki náð að klára jafna leiki en það hefur tapað 5 af 6 slíkum í vetur.

 

Leit er nú hafin af eftirmanni Baldurs en samkvæmt tilkynningu Stjörnunnar er vonast til að það gerist sem fyrst til að hægt verði að nýta það langa hlé sem framundan er hjá liðinu, sem spilar næst 29. febrúar.

 

Yfirlýsing frá körfuknattleiksdeild Stjörnunnar:

 

Baldur Ingi Jónasson hefur ákveðið að stíga til hliðar sem þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar.

Leit að eftirmanni Baldurs er hafin svo nýr þjálfari geti nýtt hið langa frí sem framundan er en stelpurnar eiga næst leik 29. febrúar gegn Haukum.

Stjórn kkd. Stjörnunnar þakkar Baldri kærlega fyrir samstarfið og óskar honum alls hins besta í framtíðinni.

Fréttir
- Auglýsing -