14:13
{mosimage}
Vegna greinar hér að neðan um uppákomu í leik KR og Breiðabliks í 11. flokki karla þar sem kemur fram að leikmaður Blika hafi veist að dómara hefur eftirfarandi komið fram í málinu.
Leikmaðurinn sem rekinn var úr húsi í leiknum sló dómaraflautuna úr höndum dómara þegar hann var við það að fara að dæma tæknivíti á Blika og fyrir vikið var hann sendur úr húsi. Leikmaðurinn nálgaðist dómara eftir leikinn og bað hann innilega afsökunar. Aðdáunarvert hjá unga leikmanninum sem sá að sér og sá eftir gjörðum sínum. Það þarf stórmennsku í að viðurkenna að maður hafi haft rangt við og telst það þessum unga leikmanni til tekna.
Markmið greinarinnar sem birtist um atvikið hér á karfan.is í hádeginu var ekki að fordæma leikmanninn sem slíkan heldur þá hegðun sem hann sýndi af sér. Atvik af þessu tagi á líkast til eftir að kenna leikmanninum margt og eitt markmiða greinarinnar var að benda á hversu erfitt starf dómaranna getur verið og að þeir hafi ekki alltaf rétt fyrir sér eða hitti alltaf á góðan dag… eins og við öll hin.
Með von um að við getum tekið höndum saman og unnið að hag íþróttarinnar.
Jón Björn Ólafsson
Ritstjóri Karfan.is