spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaAxel tekur sér pásu frá körfubolta

Axel tekur sér pásu frá körfubolta

Axel Kárason verður ekki með liði Tindastóls í Dominos deild karla á komandi tímabili, eða að minnsta kosti ekki til áramóta. Vísir.is greinir frá þessu í dag. 

 

Axel segist þó ekki vera hættur og sé tilbúinn að endurskoða ákvörðunina, líklega ekki fyrr en eftir tímabilið. Hann ætli að taka sér pásu til að einbeita sér að öðrum hlutum. 

 

„Ég hef sagt forráðamönnum Tindastóls að gera ekki ráð fyrir mér í vetur. Ég vil ekki vera að gera þetta í einhverju hálfkáki. Ég vil ekki lofa því að koma aftur eftir áramót því það er ekkert víst að löngunin verði þá til staðar. Maður veit samt aldrei hvort andinn komi yfir mann. Það verður bara að koma í ljós.“ segir hann í samtali við Vísi.

 

Axel sem starfar einnig sem dýralæknir í Skagafirði segist ætla að vinna í veikleikum sínum á vellinum á meðan á pásunni stendur og koma sterkari til baka. „Ég ætla að æfa vel í veikleikunum í vetur. Það er ekki alltaf tími til þess þegar tímabilið er í gangi. Ég ætla ekki að koma til baka lélegri en ég var. Ég mun fara á frjálsíþróttaæfingar og fæ svo pabba gamla í að skóla mig eitthvað til,“ 

 

Það er gríðarlegt áfall fyrir Tindastól að missa Axel úr liðinu en Skagfirðingar ætla sér stóra hluti í vetur. Liðið missti einnig Sigtrygg Arnar frá liðinu en liðið hefur þó bætt við sig fjórum sterkum leikmönnum uppá síðkastið. Danero Thomas, Brynjar Þór Björnsson, Dino Butorac og Urald King hafa allir samið við Tindastól og verður því fróðlegt að fylgjast með liðinu á næsta tímabili. 

 
Fréttir
- Auglýsing -