spot_img
HomeFréttirAxel Nikulásson er látinn

Axel Nikulásson er látinn

Hinn mikli meistari og harðjaxl Axel Nikulásson er fallinn frá aðeins 59 ára gamall. Axel hafði barist við veikindi og þrátt fyrir hetjulega baráttu náði hann ekki að sigrast á því eins og svo mörgum stórsigrum á sínum ferli í boltanum. Axel var Keflvíkingur í húð og hár og sleit barnskóm sínum í Bítlabænum. Axel var tvíburi en bróðir hans, Óskar Nikulásson hefur haldið vel utan um myndatökuvélarnar hjá RÚV til fjölda ára og mikið í kringum íþróttirnar einmitt. Axel spilaði með Keflavík lungan af ferli sínum og varð meistari með þeim Keflvíkingum þegar þeir tóku sinn fyrsta titil árið 1989. Þar áður hafði hann dvalið vestra í Bandaríkjunum við nám í háskóla. Árið eftir titilinn með Keflavík fór Axel svo til KR og titilinn stóri fylgdi honum þangað árið 1990. Axel tók svo að sér þjálfun seinna meir hjá KR í úrvalsdeildinni og svo tók hann við því fræga 1976 árgangs landsliði sem gerði góða hluti undir hans stjórn. Axel spilaði 63 landsleiki á sínum ferli fyrir íslands hönd. Eftir að ferlinum lauk starfaði Axel aðallega fyrir utanríkisráðuneytið og var iðulega búsettur erlendis.

Einn harðasti stuðningsmaður Njarðvíkinga, Jón Einarsson ritar orð á sína Facebook síðu sem lýsir Axel nokkuð vel.

“Hann hlýtur að hafa verið draumur hvers samherja að leika með. Sem áhorfanda uppi í stúku er minningin um leikmann sem lét sér ekki muna að svara fyrir sig með hnitmiðuðum frösum þegar svo bar undir. Það var ekki algengt að leikmenn væru að svara áhorfendum þegar þeir lésu leikmönnum pistilinn líkt og Axel átti til. Niðri á gólfi var Axel glerharður, oftar en ekki að kljást við kanana.”

Karfan.is vottar fjölskyldu og vinum Axel samúð sína á erfiðum tímum. Minning lifir um þann mikla meistara sem Axel Nikk var.

Fréttir
- Auglýsing -