Í Ólafssal í Hafnarfirði fór fram nýliðaslagur í 1. umferð Subway-deildar karla í kvöld. Heimamenn stóðu uppi sem sigurvegarar í lok leiks en þeir þurftu svo sannarlega að hafa fyrir sigrinum.
Heimamenn byrjuðu leikinn virkilega vel, komust í 7:0 og 23:13 en gestirnir enduðu 1. leikhluta frábærlega og leiddu með einu stigi að honum loknum. Matej Karlovic var funheitur í fyrri hálfleiknum og réðu heimamenn illa við hann. Stíllinn á vítalínunni vakti athygli, frábær skytta en setur vítaskotin sín í spjaldið og ofan í. Norbertas Giga var sömuleiðis virkilega öflugur hjá heimamönnum á meðan Daniel Mortensen var aðallega í því að taka fráköst.
Höttur vann 2. leikhluta með átta stigum en þriggja stiga karfa frá Darwin Davis Jr. í lok hálfleiksins varð til þess að munurinn var undir tíu stigum í hálfleik. Í hálfleik var Höttur með 70% nýtingu (12 af 17) fyrir utan þriggja stiga línuna. Þeirri nýtingu héldu þeir ekki út en enduðu þó með ríflega 50% nýtingu.
Í seinni hálfleik byrjuðu Haukar frábærlega og unnu upp forskotið á um fjórum mínútum og héldu því út leikinn. Haukarnir náðu að byggja fimmtán stiga forskot í fjórða leikhluta en misstu það nánast í jafnan leik í lokin.
Haukar unnu alla þrjá leikina við Hött á síðasta tímabili og halda því áfram ákveðnu taki á Hetti.
Byrjunarlið heimamanna græjaði sigurinn
Byrjunarlið Hauka skoraði 92 af 98 stigum liðsins og byrjunarlið Hauka var +24 stig í leiknum þegar það var inn á. Hilmar Smári Henningsson var hæstur hjá Haukum í +- með +21 eins og Adam Eiður Ásgeirsson hjá Hetti.
Haukar náðu mikið til að gera það sem þeir vildu fyrir innan þriggja stiga línuna, skoruðu þar 56 stig (48 inni í teig) og voru með 67% nýtingu í tveggja stiga skottilraunum.
Bestu menn leiksins
Giga endaði með 32 framlaggstig, 24 stig, 90% skotnýtingu og sjö fiskaðar villur. Daniel Mortensen endaði með nítján stig og sextán fráköst. í seinni hálfleik voru þeir Hilmar Smári Henningsson og Orri Gunnarsson mjög öflugir og Darwin átti nokkuð heilsteyptan leik.
Hjá gestunum voru þeir Timothy Guers og Karlovic öflugastir. Guers var með 23 framlagsstig, 24 stig, þrjá stolna bolta, fimm fiskaðar villur og sex stoðsendingar. Karlovic endaði með 25 stig og 75% þriggja stiga nýtingu.
Klappstýrur eins og í NBA
Það var skemmtilegt að koma í Ólafssal í kvöld, en það hefðu mátt vera fleiri í stúkunni. Haukar buðu upp á klappstýrur sem skemmtu áhorfendum með öflugum dansatriðum í hléum.
„Þetta er í NBA, er það ekki?” sagði Mate Dalmay, þjálfari Hauka, aðspurður út í klappstýrurnar.
Myndasafn (væntanlegt)