Tindastólsmenn mættu á Sunnubrautina í kvöld og það var mikið undir, bæði liðin við topp deildarinnar og Keflvíkingar unnu fyrri leikinn nokkuð örugglega á Sauðárkróki. Engin nýr erlendur leikmaður hjá Stólunum en Gerald Simmons hóf leikinn þrátt fyrir sögusagnir þess efnis að hann væri farinn. Nýr erlendur leikmaður Stólanna, Jeremy Geiger var á bekknum.
Keflvíkingar skörtuðu nýjum erlendum leikmanni, Callum Lawson sem leit ágætlega út en það voru þó gömlu hestarnir sem leiddu þennan leik. Eftir jafnan fyrri hálfleik þá gjörsamlega slátruðu heimamenn stólunum í síðari hálfleik. Lokatölur: 95 – 84.
Stigahæstur Keflvíkinga var Dominykas Milka með 27 og 12 fráköst en atkvæðamestur gestanna var Sinisa Bilic með 18 stig.
Tölfræðin lýgur ekki
Keflvíkingar voru einfaldlega betri á flestum sviðum körfuboltans í kvöld en aðalmunurinn fyrir undirritaðann var sá að suðurnesjamenn hreinlega átu norðanmenn undir körfunni. Frákastabaráttan fór 41-29 fyrir heimamenn og komust gestirnir lítið inn í teig. Stólarnir skutu einhverjum 41 þrist á meðan Keflavík henti í 18. Þó munaði bara 4 á hittnum þristum. 8 hittnir þristar hjá Keflavík gegn 12 hjá Tindastól.
Þriðji leikhluti
Það var þriðji leikhlutinn sem fór endanlega með gestina. Keflvíkingar hreinlega keyrðu yfir þá og slátruðu leikhlutanum 31-13. Khalil og Milka léku á alls oddi og á sama tíma voru Tindastólsmenn slakir í því að passa boltann. Töpuðu boltanum ítrekað og Keflvíkingar refsuðu hratt og örugglega. Þarna eru Stólarnir mikið að henda í erfiða þrista og leyfðu Keflvíkingum í raun að stjórna leiknum frá a-ö í leikhlutanum. Leikurinn vannst þarna.
Khalil
Khalil Ullah Ahmad var frábær í kvöld. Hann komst upp að körfunni að vild og spilaði þar að auki flotta vörn meirihluta leiksins. Sérstaklega í fyrri hálfleik. Stólarnir réðu ekkert við hann í dag og neyddust til þess að brjóta á honum í flest skiptin sem hann fór á körfuna. Frábær leikur hjá kappanum sem er einn albesti sóknarmaður deildarinnar.
Arg og garg
Mikið var rætt á samfélagsmiðlum og í samtölum milli manna um leikhléin hjá Baldri, þjálfara Tindastóls. Þar stóð Baldur aftur og aftur á öskrinu, henti í f-bompur og p-bombur og allan pakkann. Margir eru mjög hrifnir af þessari taktík en Véfréttin minnir á að ef menn gera ekkert nema öskra og garga, þá missir það marks frekar fljótt.