spot_img
HomeFréttirAuðvelt hjá Völsurum í síðari hálfleik

Auðvelt hjá Völsurum í síðari hálfleik

Þórsarar frá Akureyri mættu að Hlíðarenda í kvöld eftir 4 tapleiki í röð, Valsmenn töpuðu líka í síðustu umferð fyrir Þór frá Þorlákshöfn svo að bæði lið þurftu nauðsynlega á sigri að halda í kvöld. Staða liðanna í deildinni gerði það líka að verkum að þessi leikur skipti miklu máli. Það er skemmst frá því að segja að eftir jafnan fyrri hálfleik þá tóku Valsmenn sig til og kláruðu leikinn sannfærandi í síðari hálfleik.

 

Atkvæðamestur Valsmanna í kvöld var Urald King sem skoraði 23 stig og tók 19 fráköst, hjá Þór var Marques Oliver stigahæstur með 24 stig.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Valur skaut betur í kvöld. Þeir settu niður 50% skota sinna gegn 38% frá þórsurum. En stóra tölfræðibreytan er auðvitað að missa mann sem skorar 22 stig í einum hálfleik strax í byrjun síðari hálfleiks. Eftir brotthvarf Oliver byrjuðu Þórsarar að skjóta vondum skotum og misstu boltann oft klaufalega.

 

Mætingin

Það var afskaplega leiðinlegt að sjá hversu illa var mætt að Hlíðarenda en stúkurnar voru verulega tómar í kvöld þrátt fyrir mikilvægi leiksins. Undirritaður var í troðfullu húsi þegar að Valsmenn tryggðu sér sæti í úrvalsdeild síðasta vor. Vonandi rífa íbúar miðbæjarins og hlíðanna sig upp og mæta betur.

 

Meiðsli

Marques Oliver, leikmaður þórs átti virkilega góðan fyrri hálfleik þar sem hann gerði sér lítið fyrir, skoraði 22 stig og reyndist Völsurum virkilega erfiður ljár í þúfu. Hann meiddist svo á fæti snemma í seinni hálfleik og þá var eiginlega ekki aftur snúið. Valsmenn gengu á lagið og skoruðu 14 stig í röð á slegna Þórsara. Þessi kafli kláraði eiginlega leikinn þar sem Þór átti erfitt með að finna körfuna án síns besta leikmanns.

 

Í hnotskurn

Gríðarlega mikilvægur sigur Valsmanna sem að með sigrinum fara upp í 8 stig og eru sem stendur í 7unda sæti í deildinni. Það er orðið ansi langt síðan að Valur náði að spila meira en 1 tímabil í úrvalsdeild þannig að sæti í úrslitakeppninni væri virkilega sterkt. Þá myndu stuðningsmenn kannski mæta á völlinn. Þórsarar munu vera í gríðarlegum vandræðum ef þeirra erlendi leikmaður mun ekki spila í næstu leikjum, þeir eru sem stendur í fallsæti, 2 stigum á eftir nöfnum sínum frá Þorlákshöfn.
 

 

Tölfræði Leiksins

 

Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson
Myndir Torfi Magnússon

Fréttir
- Auglýsing -