Grindvíkingar mættu í DHL-Höllina í kvöld til þess að etja kappi við heimamenn í KR í 8 liða úrslitum Geysisbikarsins. Fyrirfram var búist við hörkuleik enda töpuðu bæði lið á svekkjandi hátt í síðustu umferð Dominosdeildarinnar. KR ingar sigruðu KR-B í síðustu bikarumferð og Grindvíkingar kláruðu B-lið Njarðvíkur.
Það er skemmst frá því að segja að þessi leikur varð aldrei spennandi. KR-ingar byrjuðu betur, komust 20 stigum yfir og héldu þeim mun allt þar til í fjórða leikhluta þegar liðið jók muninn enn meira. Lokatölur:
Julian Boyd skoraði 23 stig fyrir KR og Lewis Clinch 22 fyrir gestina.
Kjarninn
Vesturbæingar voru einfaldlega miklu betri á öllum sviðum körfuboltans í kvöld. Þeir börðust betur, hlupu kerfin sín betur, voru fljótir að bregðast við með færslum í vörninni ef einhver komst inn í teiginn og voru miskunnarlausir þegar að Boyd var með minni mann á sér. KR liðið er gríðarlega hávaxið og líkamlega sterkt, það réðu Grindvíkingar einfaldlega ekki við.
Tölfræðin lýgur ekki
KR-ingar voru betri á öllum sviðum körfuboltans í kvöld. Þeir skutu betur, 55% gegn 33% skotnýtingu suðurnesjamanna, KR tóku líka 15 fleiri fráköst í leiknum. 48 gegn 33. Það er mjög erfitt að vinna körfuboltaleiki þegar menn skjóta bæði illa og frákasta ekki.
Hetjan
Hetja KR í kvöld var sennilega Julian Boyd. Hann setti nður 23 stig, tók 10 fráköst og gaf 4 stoðsendingar á 27 mínútum. Þá voru kempurnar Jón Arnór og Pavel Ermolinskij mjög öflugir í vörninni og gáfu bestu leikmönnum Grindvíkinga engin færi á því að koma sér inn í leikinn.
Burðarásar?
Aðalskorarar Grindvíkinga, þeir Lewis Clinch og Sigtryggur Arnar Björnsson voru einfaldlega slakir í kvöld. Clinch var lengi að koma sér inn í leikinn og skoraði eitthvað af stigunum sínum í ruslatíma. Sigtryggur Arnar hins vegar var alls ekki líkur sjálfum sér, þetta var einhver alversti leikur sem undirritaður hefur séð frá Arnari. Niðurstaðan 0 stig og 1 stoðsending, ekki boðleg frammistaða. Grindvíkingar þurfa einfaldlega meira frá þessum mönnum.