Í kvöld lýkur 8-liða úrslitum í Geysisbikarkeppni karla þegar Tindastóll og Stjarnan mætast í Síkinu í Skagafirði. Leikurinn hefst kl. 19:30 og er í beinni útsendingu hjá RÚV2.
Í gærkvöldi voru það KR, Njarðvík og ÍR sem tryggðu sér sæti í undanúrslitahelginni í Laugardalshöll og því aðeins einni spurning ósvarað…hvort það verði ríkjandi bikarmeistarar Tindastóls eða Stjarnan sem verða með í bikarskálinni á morgun.
Sjálf bikarvikan fer fram 13.-17. febrúar í Laugardalshöll en líkt og í fyrra þá fara fram bikarúrslit yngri flokka og meistaraflokka á þessum fimm keppnisdögum í Höllinni.
Garðbæingar sem ekki halda norður í land geta t.d. komið saman á Nü fusion á Garðatorgi þar sem leikurinn verður sýndur en nánar má lesa um það á Facebook-síðu veitingarstaðarins. Þá eru Stólarnir með Facebook-leik í gangi í tilefni af stórleiknum í kvöld, sjá nánar um það á Facebook-síðu Tindastóls.
Mynd/ Israel Martin og Stólarnir eiga bikartitil að verja.