Karfan kynnir glænýjan vikulegan lið á síðunni. Í hverri viku munu sérfræðingar Körfunnar spá fyrir um hverja umferð í Dominos deildunum. Sérfræðingarnir verða fyrrum körfuboltamenn, þjálfarar, áhugamenn eða einhver allt annar. Tekið verður saman hvaða sérfræðingur hefur réttast fyrir sér og mun hann hljóta gjöf frá Körfunni.
Dominos deild karla hefst í kvöld með fjórum leikjum. Líkt og áður er mikil spenna fyrir nýju tímabili en miklar breytingar hafa orðið á liðunum sem gerir spennuna jafnvel enn meiri fyrir þetta tímabil.
Atli Fannar Bjarkason fyrrum ritstjóri Nútímans er mikill áhugamaður um körfubolta og stuðningsmaður Tindastóls. Hann er hér með fyrstur til þess að spá fyrir um úrslita þessarar fyrstu umferðar.
________________________________________________________________________
Tindastóll – Þór Þorlákshöfn 102 – 78
Ber alltaf mikla virðingu fyrir Þór. Verð samt að segja að minn maður Pétur Rúnar Birgisson og félagar sjá til þess að það besta sem Sunnlendingarnir fá á Sauðárkróki þetta kvöld verður pizzan eftir leik.
KR – Skallagrímur 83 – 72
KR er ennþá KR þó Brilli sé búinn að skrá Lögheimili Körfuboltans á Skagfirðingabraut 22. Þetta verður samt hörkuleikur og Skallagrímur gefur ekkert eftir, eins og kassarnir í Hyrnunni í gamla daga.
Grindavík – Breiðablik 105 – 81
Ef ég væri ungur og efnilegur körfuboltastrákur úr Kópavoginum myndi ég alls ekki velja Ólaf Ólafsson til að bjóða mig velkominn í Domino’s deildina. Úff.
Valur – Haukar 88 – 76
Þessi lið gætu barist um síðasta sætið í úrslitakeppninni, þannig að það er eins gott að þessi leikur verði meira en eins og síðasti leikurinn á tímabilinu en ekki sá fyrsti.
Stjarnan – ÍR 91 – 95
Upset! Þetta verður rosalegur leikur. Ef einhver elskar að fá fyrsta leik á móti meistaraefnunum þá er það Matthías Orri Sigurðarson. Spái slæmu kvöldi fyrir Mattahaters.
Njarðvík – Keflavík (92 – 92) 104 – 102
Hef heyrt einhverja halda því fram að Mike Craion sé ekki lengur með þetta. Gott grín. Hann verður geggjaður í vetur en ekki nógu geggjaður til að leggja Njarðvík í Ljónagryfjunni.
Mynd: Þormar Vignir