Aþena lagði KR í kvöld í þriðja leik undanúrslita fyrstu deildar kvenna, 77-70. Aþena hefur því unnið tvo leiki og geta með sigri í næsta leik tryggt sig í úrslitaeinvígið.
Aþena byrjaði af krafti og leiddi 27 – 14 eftir fyrsta leikhluta. KR kom til baka í öðrum leikhluta og sóttu aðeins á Aþenu og var staðan 44 – 35 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var mjög jafn og náði KR að minnka muninn í 4 stig þegar lítið var eftir af leiknum en Aþena stóðst áhlaup þeirra og hafði að lokum betur á lokasprettinum, 77-70.
Atkvæðamest fyrir Aþenu í leiknum var Barbara Zieniewska með 19 stig og 7 fráköst. Fyrir KR var það Michaela Porter sem dró vagninn með 19 stigum og 12 fráköstum.
Fjórði leikur liðanna er á dagskrá komandi fimmtudag 18. apríl á Meistaravöllum.
Umfjöllun / Magnús Sigurjón Guðmundsson