Snæfell fékk Aþenu í heimsókn í fyrsta sinn í meistaraflokki kvenna. Liðin eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni í 1. deild kvenna.
Gangur leiksins
Leikurinn byrjaði ágætlega og liðin skiptust á körfum, Snæfell náði mest 7 stiga forystu en Aþena kláraði 1. leikhluta með sterkum 6-0 kafla. Snæfell, með Sianna í fararbroddi í stigaskori, spiluðu fínan 2. leikhluta og komumst í 6 stiga mun þegar liðin gengu til búningsherbergja. Rebekka Rán smellti þrist á lokaandartökum fyrri hálfleiksins.
Aþena herti vörnina í 3. leikhluta og komust jafnt og þétt yfir í leiknum. Sóknarleikurinn var stirðari hjá Snæfell og Aþena fékk fleiri hraðaupphlaup. Aþena voru einu stigi yfir þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst. Aþena hélt áfram að bæta í og Snæfell að klikka á opnum þriggjastiga skotum, þegar um 6 mínútur lifðu af leiknum voru Aþena komnar með 6 stiga forskot. Snæfell náðu svo að koma muninum niður og þegar 30 sekúndur voru eftir af leiknum leggja Snæfellingar af stað í sókn tveimur stigum undir. Snæfell tapar boltanum og Sianna virðist meiðast illa og leikurinn er stoppaður í dágóðan tíma á meðan gert var að sárum hennar, meiðslin virðast alvarleg og þurfti að kalla til sjúkrabíl. Leikmenn kólna mikið á þessum mínútum sem hléið var. Aþena á boltann þegar 14,9 sekúndur voru eftir af leiknum. Snæfell brýtur á Theu Ólafíu og hún setur vítin eins og að drekka vatn, frábærlega gert hjá henni. Snæfell tekur leikhlé með 4,9 sekúndur á klukkunni. Rebekka nær skoti en er blokkuð og tíminn rennur út.
Kjarninn
Liðin eru greinilega mjög áþekk og tölfræðiþættir leiksins nánast í járnum. Aþena spilaði góða vörn í síðari hálfleik, þær fengu 11 og 19 stig á sig í leikhlutunum tveimur í síðari hálfleik, það skóp sigurinn. Boltinn fékk ekki það flæði sem heimastúlkur vildu og enduðu leikinn með aðeins 9 stoðsendingar. Mikilvægur sigur hjá Aþenu sem setur pressu á Snæfell og önnur lið í baráttunni um úrslitakeppnissæti.
Framundan hjá liðunum
Snæfell sitja í þriðja sætinu með 20 stig en Aþena komst upp að Þór Akureyri í 4-5. sætinu. Það er því skemmtileg barátta framundan.
Snæfell spilar næst við Fjölnir B í Grafarvogi og Aþena fær Stjörnuna í heimsókn. Það er líf og fjör í 1. deild kvenna og mörg lið setja stefnuna á úrslitakeppnina.
Myndasafn (Sumarliði Ásgeirsson)