Umræðan um fjölda erlendra leikmanna fer af stað á hverju oddatölu ári í körfuboltahreyfingunni, þegar fer að styttast í oddatölu-ársþing KKÍ. Flest erum við að gera okkar besta og viljum umhverfi sem er hentugast fyrir okkur hverju sinni. En það sem hentar einum, hentar ekki endilega öllum öðrum.
Sagan
Síðustu 14 ár hafa komið inn tillögur sem snúast að einhverju leiti um erlenda leikmenn og fjölda þeirra, í einhverjum tilfellum til rýmkunar, í öðrum til þrengingar.
Það eru 7 þing, þar sem mikil umræða hefur verið um fjölda þeirra og hvað sé best að gera. Í einhverjum tilfellum hafa tillögurnar farið á skjön við lög um frjáls flæði atvinnu fólks, sem okkur ber að fylgja sem land innan EES. Hér er listi yfir þær, í grófum dráttum hverjar tillögurnar voru og hver niðurstaðan var að lokum.
- 2023 – 1+2(ESB)+2(ÍSL) (Hafnað)
- 2021 – 1+1(ESB)+3 (ÍSL) (Hafnað)
- 2019 – Bosman B jafngildir Bosman A (Hafnað)
- 2017 – 2+3(ÍSL) (+ 3 ára regla) (Samþykkt)
- 2015 – Þingtillögur og gerð vantar
- 2013 – 1(ERL)+4 (Samþykkt)
- 2011 – 2(ERL)+3 (Samþykkt)
Óstöðugleiki
Það gefur augaleið að annað hvert ár þurfi lið að hugsa hvernig næsta tímabil muni líta út m.t.t. erlendra leikmanna skapar óvissu fyrir stjórnir. Í einhverjum tilfellum er eini séns félaga að gera atlögu að titli að sækja erlenda leikmenn, því er pressa á hverju einasta ári og 10-12 lið sem stefna á þann stóra. Því gefst lítil þolinmæði og tækifæri fyrir uppbyggingu, stefna á að vera með fínt lið í efstu deild, og stefna á titilinn eftir 3-5 ár af uppbyggingu. Í umhverfi þar sem sífellt er verið að hringla með fjölda erlendra leikmanna er þetta ekki mögulegt. Fyrir framtíðarsýn félaga þurfa lið meira en 1-2 tímabil af stöðugleika.
Hvað er hægt að gera?
Hér er líklega engin galdralausn á þessum málum, þar sem þetta er flókið og erfitt að gera öllum til geðs. Ég sé hins vegar tvennt sem gæti búið til stöðugleika annars vegar og hins vegar gætt sanngirnis eins og mögulegt er.
- Að tillaga sem sé samþykkt, sé samþykkt til næstu 6 ára. Þannig sköpum við stöðguleika og umhverfi sem gerir félögum kleift að vinna eftir framtíðar sýn. Á þessu er svo hægt að hafa undanþágu að ef öll félög innan deildar (eða innan KKÍ) sammælist um það, megi koma tillaga inn fyrr.
- Að reglan um fjölda uppaldra leikmanna (innan KKÍ) sé sett upp út frá fólksfjölda í hverju sveitarfélagi fyrir sig.
Sem dæmi:- Sveitarfélag með 50.000 íbúa eða fleiri = 9 af 12 verði að vera uppaldir.
- 20.000-49.999 íbúar = 8 af 12 verði að vera uppaldir.
- 10.000-19.999 íbúar = 7 af 12 verði að vera uppaldir.
- 9.999 íbúar eða færri = 6 af 12 verði að vera uppaldir.
Með þessu tel ég að sanngirni yrði náð og landsbyggðin héldi áfram að vera samkeppnishæf í efstu deildum.
OLLE (Of langt, las ekki)
Við þurfum að búa til möguleika fyrir liðin að hafa framtíðarsýn og gæta sanngirnis þegar kemur að liðunum á landsbyggðinni. Það gerist ekki með því að breyta reglum annað hvert ár, eða setja öll liðin undir sama hatt.
– Kristjana Eir Jónsdóttir / Þjálfari