Arnar Guðjónsson stýrir Aabyhøj IF í dönsku úrvalsdeildinni og er liðið í 4. sæti um þessar mundir með 6 sigurleiki og 4 tapleiki. Karfan.is ræddi við Arnar en hann mun stýra Aabyhøj IF í átta liða úrslitum danska bikarsins þegar liðið leikur gegn SISU sem er í 7. sæti deildarinnar.
,,Leiktíðin hefur farið mjög vel af stað hjá okkur, í raun framar björtustu vonum. Okkar markmið var að halda okkur í deildinni og erum við komnir vel á veg með að ná því,“ sagði Arnar sem sagði þó erfiða syrpu framundan.
,,Staða liðsins er góð, eftir síðustu umferð þá erum við einir í fjórða sæti og með smá bil í liðin í sjötta sæti og neðar. Það veitir nú ekki af því þar sem við erum að fara inn í gríðarlega erfitt leikjaplan, í næstu 5 leikjum leikum við tvisvar við Bakken sem er í öðru sæti, einu sinni við Svendborg sem eru ósigraðir og Næstved sem eru í þriðja sæti. Einnig erum við að fara að leika við SISU í 8-liða úrslitum í bikarnum.“
Arnar sagði liðið hafa ágætis möguleik þetta tímabilið: ,,Við vorum heppnir með kana, síðan erum við með góða blöndu af ungum og efnilegum Dönum og hörðum íslenskum víkingum,“ sagði Arnar en með Aabyhøj IF leika þeir Ólafur J. Sigurðsson og Guðni H. Valentínusson.
,,Framhaldið leggst mjög vel í mig, ef við komum sæmilega út úr þessari törn sem að við erum að fara í núna þá verðum við mögulega í stöðu til að keppa um 4. til 6. sætið. Menn vilja helst komast inn í úrslitakeppnina án þess að vera í 7. eða 8. sæti til að sleppa við Bakken og Svendborg í fyrstu umferð, þessi tvö lið hafa verið í úrslitum síðustu 5 árin og ekki margt sem bendir til að það breytist í vetur.“
Mynd/ Ólafur J. Sigurðsson er til varnar og Arnar eins og sannur þjálfari bendir hér dómurum leiksins í mestu rólegheitum á að sóknarmaðurinn hafi stigið á hliðarlínuna. Æsingur í þessum þjálfurum alltaf hreint.