spot_img
HomeFréttirArnar Freyr stigahæstur í sigri BC Aarhus

Arnar Freyr stigahæstur í sigri BC Aarhus

Íslendingaslagur fór fram í dönsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi þar sem BC Aarhus tók á móti Værlöse BBK. Heimamenn í BC Aarhus höfðu 71-68 sigur í leiknum þar sem Keflvíkingurinn Arnar Freyr Jónsson var stigahæstur með 17 stig og 6 stoðsendingar.
Guðni Valentínusson bætti við myndarlegri tvennu með 11 stig og 10 fráköst í liði BC Aarhus. Landsliðsmaðurinn Axel Kárason leikur með Værlöse og skoraði 8 stig og tók 5 fráköst í liði gestanna.
 
Þegar tvær sekúndur lifðu leiks komst BC Aarhus í 71-68 með tveimur vítaskotum en Soren Boje Formann átti lokaskotið til að jafna fyrir Værlöse en það geigaði.
 
Eftir leikinn í gær er BC Aarhus í 6. sæti deildarinnar með 4 sigra og 5 tapleiki en Værlöse er í næstneðsta sæti með einn sigur og sjö tapleiki.
 
Fátt ef nokkuð breytist í dönsku úrvalsdeildinni því Bakken Bears og Svendborg Rabbits tróna ósigruð á toppi deildarinnar með átta sigra í röð.
 
Mynd/ http://bcaarhus.dk/ – Arnar Freyr Jónsson á ferðinni með BC Aarhus.
  
Fréttir
- Auglýsing -