Stjarnan lagði Hött í Umhyggjuhöllinni í kvöld í Subway deild karla, 92-82. Eftir leikinn eru bæði lið með 18 stig, en vegna innbyrðisviðureignar er Höttur í 8. sætinu og Stjarnan í 9. sæti deildarinnar.
Arnar Guðjóns var tekinn tali eftir lífsnauðsynlegan sigur í kvöld:
…þú ættir kannski að koma oftar hingað…við vinnum loksins leik þegar þú mætir á svæðið…
Jájá! Ég ætti að mæta oftar, tek þetta á mig! En það hlýtur að hafa verið svolítil spenna í þér og þínum mönnum fyrir þennan leik svona í ljósi stöðunnar?
Það verður það bara það sem eftir er leiktíðarinnar. Þessi leikur gerir ekkert annað en það að við eigum ennþá möguleika, hefðum við tapað værum við bara búnir, en það er langur vegur framundan, við eigum ennþá bara möguleika.
Já, staðan er sú að þið þurfið að treysta á úrslit annarra leikja, því miður þá er það þannig…
…já ég veit það ekki einu sinni…þú ert örugglega búinn að skoða þetta allt saman…
Ég trúi varla öðru en þú vitir það líka! Þið eruð að eltast við það að vinna fleiri leiki en Höttur það sem eftir er EÐA að vinna fleiri leiki en Tindastóll. Það eru ykkar möguleikar.
Já, ég held að það passi…
En að þessum leik – þú ert væntanlega að mörgu leyti sáttur með þína menn?
Jájá, bara eins og er alltaf, og hefur verið í mörgum leikjum í vetur sem hafa ekki unnist. Það var bara margt mjög gott og margt sem við þurfum að reyna að laga. Þetta var ekki fullkomið en við náðum alla veganna í sigur og það er fyrsta skrefið.
Ég skrifaði í innganginum að það væri eins og þið hefðum ekki haft gott af því að hafa fullskipað lið því að það hefur gengið verr eftir því sem fleiri hafa bæst í hópinn…en auðvitað er í raun fáránlegt að segja það og væntanlega ekki gott að missa Júlla og Dagur verður ekkert meira með í vetur…
Bara sorglegt með Dag greyið en það er bara raunveruleikinn, því miður, en kannski einfaldar þetta eitthvað skiptingarnar og menn vita að þeir eru að fara að spila meira og líður betur inn á vellinum þess vegna, ég veit það ekki. En maður reynir að sjá eitthvað jákvætt í því neikvæða.
Það þýðir ekkert annað. En hvernig er staðan á Júlla og Addú sem var ekki með í kvöld.
Addú fékk heilahristing og það eru bara vitrir menn sem geta sagt til um hvað gerist með það. Júlli sagðist geta komið inn á aftur en ég lagði ekki í það, hann hefur líka verið veikur alla vikuna og hefur ekki æft síðan á sunnudag svo…
Akkúrat. Hvað er næsti leikur hjá ykkur?
Það er Álftanes.
Það verður svakaleg barátta og eiginlega nauðsynlegt fyrir ykkur að sækja sigur eins og bara í öllum leikjum sem eftir er?
Já við þurfum bara að finna leiðir til að vinna leiki, það er bara það eina sem skiptir máli fyrir okkur núna.