Stjarnan vann góðan sigur á Breiðablik í annarri umferð Dominos deildar karla í kvöld. Meira má lesa um leikinn hér.
Arnar Guðjóns, þjálfari Stjörnunnar var tekinn tali eftir leik:
Arnar er skorinortur og skýr leikgreinir og sá leikinn á þennan veg:
Blikarnir voru bara hrikalega flottir. Þeir voru duglegri en við í dag, meiri kraftur í þeim að öllu leyti og bara fullt kredit á Blikana. Mér finnst þeir ótrúlega flottir, þeir spila hratt og spila inn á sína styrkleika.
Ég þykist hafa greint jafnvel smá stress í ykkur á köflum þegar þetta var ekki alveg að ganga hjá ykkur og þeir komust einhverjum 11 stigum yfir á tímabili í fyrri hálfleik.
Við vorum bara lélegir í fyrri hálfleik, en einkum varnarlega. Við erum þessa stundina bara slakir varnarlega og það er mikið áhyggjuefni. Við erum ekki lið sem getur bara sleppt því að spila vörn, við þurfum aftur á móti að lifa á því. Þetta var ekki nógu gott hjá okkur í kvöld.
Þið fenguð á góðum tímapunkti, ef svo má segja, tvo risaþrista frá Hlyni sem kom ykkur upp í einhverja 10 eða 12 stiga forystu og það varð það sem gerði útslagið.
Já, ég lít svo á að við vorum einmitt að skjóta ágætlega og hitta vel og ef það hefði klikkað hefðum við einfaldlega tapað. Það er ekki það sem við ætlum að vera, við ætlum ekki að vera lið sem ætlar að lifa á því að eiga einhverja skotleiki. Það er vandamálið og ég er bara mjög ósáttur með varnarleikinn í dag.
Það var þó gaman að sjá Antti í leiknum, ekki að það hafi verið nokkur ástæða til að afskrifa hann eftir einn leik, en hann var flottur í kvöld.
Jájá, hann skaut vel í dag en illa á föstudaginn. En málið er að allt annað en skotin var drullugott hjá honum á föstudaginn. Fólk heldur stundum þegar að það er verið að kaupa inn einhverja útlendinga að þetta séu einhverjir óstöðvandi menn í einu og öllu, hann smellur inn í liðið rétt eins og Paul, alveg eins og Maggi eða Dúi eða hver sem er. Þetta er bara lið og ef einhver einn maður á lélegan skotleik þá á hann bara lélegan skotleik og ekkert með það. Ef Antti myndi hitta alltaf þá væri hann í NBA, ekki Stjörnunni.