spot_img

Ármann vann leik 1

Úrslitakeppni 1. deildar karla hófst í kvöld. Ármann vann sér inn heimavallarrétt í úrslitakeppninni og fengu því Selfoss í heimsókn í Höllina. Selfyssingar náðu að vinna sig inn í úrslitakeppnina á lokaspretti deildarinnar. Þeir höfðu verið að spila vel í síðustu leikjum deildarkeppninnar og mátti því alveg búast við erfiðum leik. 

Fyrsti leikhluti var jafn og spennandi. Liðin hittu bæði vel og skiptust á að skora flottar körfur. Í öðrum leikhluta lagaðist vörn Ármenninga töluvert og þeir héldu áfram að hitta vel. Selfyssingum gekk ekki eins vel og í byrjun leiks og Ármann náði ágætri forystu sem hélst fram að hálfleik.

Seinni hálfleikur náði ekki að verða spennandi, Selfoss klóraði aðeins í bakkann en náðu aldrei að nálgast almennilega og Ármann landaði þægilegum sigri 109-93.

Ármenningar áttu frekar góðan dag, stigaskorið dreifðist vel á milli eins og oft áður. Kristófer Breki Björgvinsson var stigahæstur með 23 stig. Hann komst oft á hringinn og var ógnandi allan leikinn. Jaxson Baker var með 22 stig af bekknum.

Arnaldur

Arnaldur Grímsson sem var valinn í úrvalslið 1. deildar fyrr um daginn skoraði 18 stig og tók 8 fráköst og Cedric Bowen var með 18 stig og 10 fráköst. Adama Darboe skoraði 12 stig, sendi 10 stoðsendingar og tók 7 fráköst ásamt því að klikka ekki á skoti.

Hjá Selfossi var Follie Bogan öflugur, sérstaklega í byrjun. Hann skoraði 25 stig og tók 7 fráköst. Vojtéch Novák var einnig góður og endaði með 19 stig og 12 fráköst. Gísli Steinn skoraði 13 stig og Tristan Máni 10 stig. 
Selfoss er með marga unga og efnilega stráka sem ekki má vanmeta og það verður ekki auðvelt fyrir Ármenninga að sækja sigur á Selfoss á mánudaginn þegar leikur 2 fer fram í Vallaskóla. 

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -