Liðin í 1. deild karla eru á fullu þessa dagana að safna liði fyrir komandi átök. Ljóst er að hart verður barist og spennandi deild er framundan.
Ármann tilkynnti nú fyrir stundu að liðið hefði samið við Arnald Grímsson um að leika með liðinu á næstu leiktíð. Arnaldur hefur leikið gríðarlega vel í 1. deildinni síðustu tímabil og hefur nú ákveðið að söðla um og leika með Ármenningum. Arnaldur hefur í sumar verið orðaður við ýmis félög og ljóst að hann var eftirsóttur biti á markaðnum.
Ármann tilkynnti í gær einnig að liðið hefði náð samningum við Adama Darboe. Liðið var í 10. sæti í 1. deildinni á síðustu leiktíð og strax ljóst að liðið ætlar sér að gera betur á komandi leiktíð.
Tilkynningu Ármenninga má finna hér að neðan:
Arnaldur semur við Ármann
Penninn er sjóðheitur hjá okkur Ármenningum þessa dagana og það er okkur mikill heiður að tilkynna að félagið hefur samið við Arnald Grímsson um að leika með liðinu á komandi tímabili.
Arnaldur kemur frá liði Þróttar í Vogum en þar átti hann frábært tímabil og endaði með 17 stig og 8 fráköst að meðaltali með liðinu auk þess að skjóta frábærlega. Hann er uppalinn hjá KR en hefur einnig leikið með Vestra, Selfossi og Val á sínum ferli. Síðustu ár hefur hann verið með betri leikmönnum 1. deildarinnar.
Við erum gríðarlega stolt að Arnaldur velji það að taka næstu skref sín hjá Ármanni. Við teljum að hann geti haldið áfram að taka framförum í bláa búningnum og þróist með félaginu.
Við bjóðum Arnald hjartanlega velkominn í Laugardalinn og hlökkum til samstarfsins.
Fyrsti leikur tímabilsins er þann 4. október næstkomandi í Laugardalshöll gegn Skallagrím.
Áfram Ármann