spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÁrmann með þriðja sigurinn í röð eftir spennuleik

Ármann með þriðja sigurinn í röð eftir spennuleik

Það var rosalega spennandi leikur sem Ármann og KV buðu uppá í 1. deild karla í gærkvöldi. Leikurinn var jafn allan tímann og bæði lið skiptust á að hitta úr flottum skotum og sýndu mikil gæði í sóknarleik. Spennan hélst fram á lokamínúturnar og þá náðu Ármenningar að síga fram úr með stórum skotum á ögurstundu. 

ArnórvsFrosti

KV byrjaði leikinn betur og náði góðri forystu í byrjun. Það fór um heimamenn því að strákarnir í KV sýndu snemma að þeir kunna vel að spila körfubolta. Lið Ármanns er þó feiknasterkt líka og þeir komust fljótt aftur inn í leikinn. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 24-25.

Annar leikhluti hélst jafn allan tímann. Liðin skiptust á körfum og spiluðu skemmtilegan körfubolta. Jafnt í hálfleik 50-50.

Seinni hálfleikur einkenndist áfram af flottu spili og gæðum í leik beggja liða. KV náði að komast 5 stigum yfir um miðjan fjórða leikhluta þegar Friðrik Anton Jónsson stal boltanum og lagði hann ofan í. Ármann náði fljótt að svara og settu stór skot aftur og aftur. Adama Darboe og Cedrick Bowen settu mikilvæg skot ofan í og svo kláraði Arnaldur Grímsson leikinn með rosalegu þriggja stiga skoti þegar 20 sekúndur voru eftir af leiknum. Þessi þristur kom Ármanni 5 stigum yfir og eftir að Lars Erik Bragason klikkaði á þriggja stiga skoti hinu megin fyrir KV var sigurinn í höfn.

Lokatölur 101-96

Adama Darboe

Hjá Ármanni var Cedrick Bowen með mjög góðan leik. Hann hitti mjög vel, skoraði 29 stig og tók 11 fráköst og var illviðráðanlegur allan leikinn. Adama Darboe var duglegur að mata liðsfélagana og var mjög nálægt því að ná þrennu í leiknum. Hann var með 19 stig, 11 stoðendingar og 8 fráköst. Einnig var Arnaldur Grímsson öflugur sem fyrr. Hann skoraði 24 stig og tók 6 fráköst. 

Adama að senda á Cedric

Frábært byrjun á tímabilinu hjá Ármanni sem hafa sýnt að þeir eru með feiknasterkt lið sem er til alls líklegt í vetur.

KV mega ganga sáttir frá þessum leik. Þeir eru með gífurlega sterkan hóp af strákum sem kunna vel körfubolta. Þarna voru á ferð nokkrir fyrrverandi Ármenningar og léku þeir okkur oft illa í leiknum. Arnór Hermannsson átti góðan leik og endaði með 22 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Hann er virkilega góður í að stýra liðinu og finnur alltaf réttu sendinguna. Friðrik Anton Jónsson var einnig mjög öflugur í liði KV, hitti vel og skoraði 23 stig og tók 6 fráköst. 

Arnaldur

Það er ekki langt að bíða eftir næsta leik því að á sunnudaginn mun stórlið Njarðvíkur mæta í Laugardalshöllina í VÍS bikarnum. Þetta gæti orðið eini leikurinn sem verður spilaður í VÍS bikarnum í Höllinni þetta tímabilið og því full ástæða til að mæta á pallana og fylgjast með. Leikurinn hefst klukkan 17:00.

Fréttir
- Auglýsing -