Tindastóll tók á móti Ármanni í 1. deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Fyrir leikinn var Ármann í öðru sæti deildarinnar á eftir taplausum ÍR-ingum og ljóst að heimakvenna beið erfitt verkefni.
Leikurinn fór jafnt af stað og heimakonur í Tindastól áttu í fullu tré við öfluga gestina. Ksenja Hribljan stýrði sóknarleik Tindastóls af ákveðni og spilaði öfluga vörn á Jónínu Karlsdóttur. Liðin skiptust á að skora fram á síðustu mínútu fjórðungsins þegar Ármann tók á sprett og náði 5-0 kafla á lokamínútunni, staðan 14-21 eftir fyrsta fjórðung. Heimastúlkur komu ákveðnar til leiks í öðrum fjórðung og voru búnar að jafna eftir rúmar 4 mínútur 23-23. Þær áttu þó alltaf erfitt með að hemja Schekinu, erlendan leikmann Ármanns, sem setti næstu 8 stig leiksins og Ármann náði að rykkja aftur frá. Staðan 30-36 í hálfleik og allt opið.
Inga Sólveig kom sterk inn í seinni hálfleikinn, varði skot og eftir þrist frá Evu Rún munaði aðeins 3 stigum á liðunum snemma í seinni hálfleik. Enn var það Schekinah sem sá til þess að gestirnir héldu forystunni og frumkvæðinu í leiknum og þegar 4 mínútur lifðu af þriðja fjórðung fékk Ksenja sína aðra tæknivillu og var þar með útilokuð frá frekari þáttöku í leiknum. Ármann gekk á lagið og náðu átta stiga forystu fyrir lokaátökin þrátt fyrir mikla baráttu heimakvenna, ekki síst Maddie Sutton sem lék seinni hálfleikinn með brotið nef eftir högg í lok fyrri hálfleiks. Gestirnir héldu forystunni vel inn í lokaleikhlutann og hún varð mest 15 stig þegar tæpar 5 mínútur voru eftir. Það bil var of mikið fyrir heimakonur að brúa þrátt fyrir hetjulega baráttu og góð skot frá Önnu Karen og Rebekku Hólm og gestirnir sigldu að lokum góðum 11 stiga sigri heim.
Hjá Tindastól var Maddie Sutton stigahæst með 17 stig og reif niður 15 fráköst að auki, þrátt fyrir að hafa fengið öflugt högg rétt fyrir hálfleik eins og áður segir. Ksenja var frábær á meðan hennar naut við og Rebekka Hólm setti niður góða þrista, var með 44% nýtingu utan línunnar. Hjá gestunum var það Schekinah sem dró vagninn, frábær íþróttakona sem nánast enginn gat hamið í kvöld. Hún endaði með ótrúlegar tölur, 49 stig og 25 fráköst og 60 framlagspunkta. Hún og Jónína Karlsdóttir léku allar mínútur leiksins en Jónína var nokkuð frá sínu besta, hitti aðeins úr einni tilraun af 15 utan þriggja stiga línunnar í kvöld.
Myndasafn (væntanlegt)
Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna