16:26
{mosimage}
(Formaðurinn Lárus Blöndal fyrir miðju ásamt Yngva Gunnlaugssyni og Ara Gunnarssyni)
Valsmenn endurheimtu í dag tvo af sínum týndu sonum þegar þeir Yngvi Gunnlaugsson og Ari Gunnarsson sömdu við félagið. Yngvi mun taka við karlaliði Vals í 1. deild karla og þreyta sína frumraun sem þjálfari meistaraflokks karla en Ari mun taka við kvennaliði Vals. Yngvi stýrði Haukakonum til Íslandsmeistaratitils á nýafstaðinni leiktíð en Ari stýrði kvennaliði Hamars inn í undanúrslit Iceland Express deildar kvenna. Báðir eru Ari og Yngvi uppaldir Valsarar og sögðust báðir í samtali við Karfan.is vera komnir heim.
Menn þurfa að finna leikgleðina aftur!
,,Það er ýmislegt sem ég tel mig hafa fram að færa, ákveðin reynsla og þekking á deildinum en líka leikgleðin og það er það sem maður þarf að hafa í fyrirrúmi. Sumir af þessum strákum eru orðnir svo þjakaðir af þessari pressu við að koma Val upp í úrvalsdeild að þeir hafa gleymt því að það á líka að hafa gaman af þessu og það leggur maður einmitt áherslu á, að láta kappið ekki bera fegurðina ofurliði,“ sagði Yngvi Gunnlaugsson í samtali við Karfan.is í dag en í fjórgang hefur Valsmönnum mistekist að tryggja sér sæti í úrvalsdeild.
Yngvi er Valsmaður að upplagi en fannst honum það ekki freistandi að reyna að sækja nýjan eða verja Íslandsmeistaratitilinn með Haukakonum?
,,Jú að sjálfsögðu en þegar kallið kemur og manni býðst að koma aftur heim þá líður manni eins og maður hafi búið í útlöndum. Manni hefur liðið vel en heima er best. Þetta er samt gríðarleg áskorun en samt gaman fyrir mig að geta lagt lóð mín á vogarskálarnar fyrir Val og vonandi get ég endurgoldið það traust sem mér er sýnt með þessari ráðningu,“ sagði Yngvi sem gerði þriggja ára samning við Valsmenn með endurskoðunarákvæði eftir hverja leiktíð en samningar af þessu tagi eru vel þekktir í körfuboltanum.
,,Markmiðið er að reyna að halda kjarnanum af Valshópnum sem leikið hefur hér síðustu ár og sjá svo hvort það séu aðrir sem hafi áhuga á því að leika fyrir félagið. Markmiðið er einnig að vera áfram í toppbaráttunni og auðvitað er draumurinn að fara upp með Val en menn þurfa fyrst og fremst að finna leikgleðina aftur því það gerist ekkert af sjálfu sér,“ sagði Yngvi sem bjóst fastlega ekki við því að Rob Hodgson fráfarandi þjálfari Vals myndi leika undir hans stjórn á næstu leiktíð.
,,Þó ég og Rob séum góðir vinir þá er það alveg útilokað að hann leiki með Val á næstu leiktíð. Rob fer örugglega á annan vettvang til að stunda sína iðju og ég óska honum alls hins besta,“ sagði Yngvi en hver verða hans fyrstu verk að Hlíðarenda?
,,Nú er að setjast niður með leikmönnum, funda með þeim og sjá hvað þeir ætla sér. Vonandi er mín ráðning vatn á millu þeirra og að þeir vilji áfram spila fyrir Val. Þetta er fyrsta skrefið, að loka hópnum og sjá hverja maður hefur,“ sagði Yngvi sem stýrir Val í 1. deild karla á næstu leiktíð.
{mosimage}
Valur á að vera á toppnum í öllum flokkum og í öllum greinum
Harðjaxlinn Ari Gunnarsson hefur komið víða við, m.a. í Borgarnesi og í Hveragerði en hann er Valsmaður í húð og hár og er nú kominn heim á ný og stýrir Valskonum í Iceland Express deild kvenna á næstu leiktíð.
,,Að sjálfsögðu er eftirsjá í því að kveðja Hveragerði. Þar náði ég samt mínum markmiðum og eitt þeirra var að koma liðinu inn í fjögurra liða úrslit og ég kláraði það,“ sagði Ari sem tekur við brokkgengu Valsliði. Stöðugleiki, verður það eitthvað sem hann mun þurfa að glíma við?
,,Ég þarf að skoða alla hluti en Valsliðið er gott og með reynda leikmenn, Valur er klárlega með besta leikmann deildarinnar í Signýju. Hún er drottningin og það eru klárlega nokkrar prinsessur í kringum hana,“ sagði Ari léttur í bragði og ljóst að honum leiddist ekki að vera kominn heim að Hlíðarenda að nýju.
,,Í fljótu bragði hef ég skoðað liðið aðeins í huganum og það væri gott að styrkja það en ef við höldum sama hóp sé ég ekki að við þurfum að styrkja hópinn mikið heldur frekar að skerpa á vissum hlutum,“ sagði Ari og viðurkenndi að herða þyrfti róðurinn líka í yngri flokkunum. ,,Ég reyndar þekki ekki alveg nægilega vel stöðuna á yngri flokkunum hér en við þurfum að rækta garðinn, það er alveg klárt mál,“ sagði Ari en bauð alla velkomna í Val.
,,Hér eru allir velkomnir en við þurfum kannski einn eða tvo innlenda leikmenn,“ sagði Ari en sagði það óráðið hvort erlendur leikmaður yrði fenginn að Hlíðarenda.
Ari byrjaði um 11 ára aldur í körfubolta og það leyndi sér ekki samtali hans við Karfan.is að þar slær hjartað hvað hraðast.
,,Hér byrjaði ég í körfubolta um 11 ára aldurinn en fór héðan 21 árs gamall til Svíþjóðar og hef svo komið víða við. Ég hef alltaf verið Valsari og kem hingað á hverju sumri, sæki fótbolta- og handboltaleikina. Ég er Valsari og verð alltaf Valsari, alveg sama hvar ég hef verið. Af þessum sökum er þessi stund sérlega notaleg fyrir mig,“ sagði Ari og kvaðst ánægður með aðstöðuna hjá Völsurum.
,,Við erum klárlega með eina bestu aðstöðuna á landinu, Öskjuhlíðina og Nauthólsvíkina, í næsta nágrenni og þessi aðstaða okkar er ekki sjálfgefin. Ég hef komið um allt hér heima og veit því að hér að Hlíðarenda er allt til alls og því á Valur að vera á toppnum í öllum flokkum og í öllum greinum, þannig sé ég félagið Val,“ sagði Ari Gunnarsson ákveðinn í samtali við Karfan.is.
Jón Björn Ólafsson
[email protected]
Meðfylgjandi er fréttatilkynning frá KKD Vals:
FRÉTTATILKYNNING FRÁ KÖRFUKNATTLEIKSDEILD VALS
Ari Gunnarsson ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna og Yngvi Páll Gunnlaugsson þjálfari meistaraflokks karla.
Körfuknattleiksdeild Vals hefur gert þriggja ára samning við Ara Gunnarsson sem þjálfara meistaraflokks kvenna og Yngva Pál Gunnlaugsson sem þjálfara meistaraflokks karla.
Ari Gunnarsson byrjaði að æfa minnibolta hjá Val og æfði upp alla yngriflokka. Hann var leikmaður meistaraflokks Vals á árunum 1987 til 1992. Ari hóf þjálfaraferil sinn sem þjálfari yngriflokka hjá Val árið 1986 en þjálfaði kvennalið Hamars með góðum árangri undanfarin tvö tímabil.
Yngvi æfði körfubolta með yngriflokkum Vals og á því sterkar rætur í félaginu. Yngvi hóf þjálfaraferil sinn með yngriflokka UMF Tálknafjarðar 1992 en hefur þjálfað meistaraflokk kvenna hjá Haukum undanfarin tvö tímabil með glæsilegum árangri.
Ráðning Ara og Yngva er liður í því að byggja upp öfluga körfuknattleiksdeild hjá Val. Markmið Vals er að komast með meistaraflokk karla í úrvalsdeild á ný og að meistaraflokkur kvenna geri atlögu að titli á næsta keppnistímabili. Liður í þessari uppbyggingu er að fá öfluga þjálfara með mikinn metnað til þess að vinna að þessu verkefni hjá Val.
Ari og Ingvi taka við þjálfun meistaraflokkana af Rob Hodgson sem hefur stýrt liðunum síðustu tvö ár. Körfuknattleiksdeild Vals þakkar Rob fyrir hans störf og gott samstarf á þeim tíma.