spot_img
HomeFréttirÁreynslulítill sigur Snæfells

Áreynslulítill sigur Snæfells

Í kvöld mættust á Ásvöllum liðin sem léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn á síðasta tímabili. Miklar mannabreytingar hafa orðið á liði Hauka og því var fyrirfram ekki búist við jafn jöfnum leik og í úrslitarimmu liðanna síðastliðið vor. Svo fór að Snæfell sigraði leikinn örugglega 42-69 og situr nú á toppi Domino's deildar kvenna með 6 stig líkt og Stjarnan, Njarðvík og Keflavík.  

 

Þáttaskil
Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta og virtust sprækar Haukastelpurnar ætla að standa í Íslandsmeisturunum. Varnarleikur Snæfellinga small saman eftir miðjan annan leikhluta og sló Haukastelpur út af laginu, þær tóku erfið skot, töpuðu boltanum 8 sinnum í fjórðungnum og skoruðu ekki nema 7 stig. Snæfell gekk á lagið og byggði upp góða 19 stiga forystu áður en flautað var til hálfleiks. Þær létu forystuna ekki af hendi og lönduðu öruggum sigri.

Hetjan
Flestir leikmenn beggja liða hafa átt betri dag. Gunnhildur Gunnarsdóttir fyrirliði Snæfells átti þó fínan leik og skilaði 23 stigum.

Tölfræði
Töfræðin ber þess vitni að Haukar áttu erfitt uppdráttar í sókninni og virðist vanta einhvern sem stjórnar og tekur af skarið þegar á þarf að halda. Þær reyndu 16 þriggja stiga skot en aðeins eitt þeirra rataði rétta leið og eftir að hafa farið í gegnum 1. leikhluta án þess að tapa boltanum voru þeir orðnir 21 þegar flautað var til leiksloka. Snæfell gerði betur í langflestum tölfræðiþáttum og endurspeglast það í lokatölum leiksins. 

Kjarninn
Bæði lið eiga mikið verk fyrir höndum, Snæfell ef þær ætla að verja titilinn og Haukar ætli þær sér að halda sæti sínu í deildinni. Þrátt fyrir öruggan sigur eiga Snæfellskonur eftir að stilla strengi sína betur saman og eiga mikið inni. Að sama skapi eru Haukar með ungt og reynslulítið lið og á veturinn án efa eftir að verða þeim erfiður en lærdómsríkur. 

Umfjöllun Guðrún Gróa og Bára Dröfn

Myndasafn (Þorsteinn Eyþórsson)

Myndasafn (Bára Dröfn)

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -