Það var fátt um fína drætti í Icemarhöllinni þetta kvöldið þegar Haukar mættu í heimsókn til Njarðvíkinga. Njarðvíkingar silgdu í höfn nokkuð þægilegum 103:81 sigri eftir að hafa leitt með um 30 stigum megnið af leiknum.
Máttlausir Haukar
Það þarf svo sem ekkert að fara í neina djúpa greiningu á þessum leik í kvöld. Haukarnir mættu einfaldlega til leiks með hangandi haus og virtust aldrei trúa á verkefnið. Ljónin úr Njarðvík þefuðu bráðina uppi og strax í fyrri hálfleik leiddu þeir með tæpum 30 stigum gegn algerlega máttlausu liði Hauka. De´sean Parsons reyndi svo sem eins og hann gat og á stundum jafnvel full mikið án þess að spila félaga sína uppi, en töluvert vantaði uppá leik þeirra Haukamanna þetta kvöldið til að ná einhverju út úr leiknum. Ekki einu sinni lukkudísirnar voru á bandi Hauka í kvöld, því jafnvel opin skot þeirra voru ekki að detta niður.
Númer 10 Birmingham hjá Njarðvík
Njarðvíkingar þurftu svo sem engan stjörnuleik þetta kvöldið til að leggja Haukana eins og fyrri málsgreinin hér að ofan gefur til kynna. Þeir grænklæddu virtust í raun fá þetta svolítið upp í hendurnar enda duglegir að bæði sækja á körfuna og svo að finna opin skot fyrir utan. Í nokkuð öflugu liði Njarðvíkinga þá var Dwayne Lautier þeirra atkvæðamestur í skorun en það gladdi augað hinsvegar þegar dýpra var farið á bekkinn og yngri leikmenn fengu að spreyta sig. Það eru t.a.m. orðin þó nokkur ár síðan undirritaður sá þrist frá Birmingham ættleggnum. Brenton “gamli” sá um þetta hér um árið en sonur hans Patrick Joe lét til sín taka í kvöld og setti 8 stig.
Njarðvíkingar velgja nú toppliðum Stjörnunar og Tindastóls undir uggum og eru aðeins einum sigri frá topp 2 sætunum. Haukar hinsvegar fallnir í 1. deildina.