spot_img
HomeFréttirÁramótin snemma í Hólminum

Áramótin snemma í Hólminum

 Hólminum mættust Snæfell og Valur. Snæfellsstúlkur hafa verið á ágætu róli og eru í öðru sæti Dominosdeildarinnar og hafa verið að spila vel. Valsstúlkur eru í fjórða sæti og eru með hörkulið og ætla sér ekkert að verða eftir heima í vetur. Það er skemmt frá því að segja að Snæfell áttu yfirburða leik og sigruðu með 44 stigum 82-38 og áramótaflugeldasýningin byrjaði snemma ú Hólminum.

 

Snæfellsstúlkur byrjuðu ákveðið og fóru stundum of hratt í sóknum sínum en það slípaðist aðeins til og þær leiddu 14-6 um miðjan fyrsta hluta. Valsliðið þurftu að hafa fyrir hlutunum í vörninni og brugðu á það ráð að taka sér tíma til skrafs og ráðagerða en í sóknum þeirra sem ekki gengu upp hirtu Snæfellingar fráköstin og tók á sprett. Valsliðunu reyndist erfitt að eiga við svæðisvörn Snæfell sem neyddi þær í löng skot og Snæfell jók muninn 21-8 og leiddu eftir fyrsta hluta 23-9.

 

Valsstúlkur voru of hikandi í sínum leik og Snæfell fann það klárlega og réðust á alla bolta sem hægt var að krækja í. Skorið í öðrum hluta var 2-6 fyrir Val eftir fimm mínútna leik og aðeins farið að gíra niður en lítið ofaní. Það var eins og kveikt væru ljósin í salnum aftur og Snæfell rúllaði í 7-0 kafla og bætti í forskotið 32-15. Síðustu mínútu fyrri hálfleiks var einfaldlega beðið á Valsbekknum eftir að komast í hálfleikshlé á meðan bætti Snæfell enn meira í í svakalegum 12-1 kafla og leiddu 44-16 í hálfleik.

Haiden Palmer hafði skorað 18 stig og Gunnhildur 10 stig, Hugrún Eva var að spila feiknarvel og hafði skorað 6 stig, tekið 5 fráköst og varið 2 bolta. Hjá Val var Karisma Chapman með 7 stig og Guðbjörg Sverrisdóttir 4 stig.

 

Valsstúlkur komu með meiri kraft inn í seinni hálfleik og boltinn gekk mun betur í sóknum þeirra og virtust hafa farið betur yfir örfá atriði í hléinu. 30 stiga múrinn féll engu að síður 58-28 með stórgóðum þrist frá Rebekku Rán og staðan eftir þriðja hluta 60-30 þar sem Snæfell gat spilað af minna tempói og átt inni krafta í þann fjórða.

 

Fjórði hluti fór í „íbætingu“ , sem nýtt orð, og voru Snæfellsstúlkur oft óínáanlegar og leiddu 73-32 og stálu öllu steini léttara og þá sérstaklega boltanum og leikurinn í raun búinn fyrir fjórða fjórðunginn. Rebekka Rán var alveg á eldi og setti niður stóru skotin. Snæfellstúlkur slá ekki slöku við og eflast við hvern leik og spila einkar sannfærandi og góðan körfubolta á háu tempói. Valsstúlkur eiga töluvert meira inni og hittu á afar slæman dag.

 

Stórsigur Snæfells 82-38 og hjá þeim var Haiden Palmer með 25 stig, Gunnhildur Gunnarsdóttir var með 14 stig og henni næst var hin kyngimagnaða Rebekka Rán með 13 stig. Það þarf ekki að fjölyrða um að allt Snæfellsliðið átti frábæran dag. Hjá liði Vals hurfu lykilleikmenn af sviðinu en Karisma Chapman var með 15 stig og næst henni var Margrét Einarsdóttir með 7 stig.

 

Tölfræði leiks

 

Texti:  Símon B Hjaltalín.

 

Mynd úr safni:  Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði 14 stig fyrir Snæfell.

Fréttir
- Auglýsing -