Karfan kynnir glænýjan vikulegan lið á síðunni. Í hverri viku munu sérfræðingar Körfunnar spá fyrir um hverja umferð í Dominos deildunum. Sérfræðingarnir verða fyrrum körfuboltamenn, þjálfarar, áhugamenn eða einhver allt annar. Tekið verður saman hvaða sérfræðingur hefur réttast fyrir sér og mun hann hljóta gjöf frá Körfunni.
Dominos deild kvenna hefst í kvöld með fjórum leikjum. Líkt og áður er mikil spenna fyrir nýju tímabili en miklar breytingar hafa orðið á liðunum sem gerir spennuna jafnvel enn meiri fyrir þetta tímabil.
Anna María Sveinsdóttir fyrrum leikmaður Keflavíkur á að baki 11 Íslandsmeistaratitla og var valin körfuboltakona síðustu aldar um aldarmótin. Hún er fyrst til þess að spá fyrir um úrslit í vetur.
________________________________________________________________________
Haukar – KR
Ég á von á að Haukar taki þennan leik frekar létt, þær eru með þéttan hóp, búnar að spila lengi saman og með góðan útlending, ég held að KR þurfi aðeins tíma til að slípa sinn leik, hafa ekki mikið bætt við sig síðan í fyrra og ég held að þær komist ekki langt með það, Haukar sigra með 18 stigum.
Valur – Skallagrímur
Þetta verður hörkuleikur, það verður fróðlegt að sjá útlendingana í þessum liðum hvernig þær koma inn í leik liðanna, ég á von á sigri Vals mér finnst breiddin meiri þar og spái þeim sigri með 10 stigum.
Breiðablik – Snæfell
Breiðablik – Snæfell, þessi leikur er alveg spurningamerki. Bæði lið með nýja þjálfara í brúnni og dálítið breytt lið frá því í fyrra, Snæfell með reynsluna en eitthvað er af meiðslum í þeirra herbúðum heyrði ég sem gæti komið þeim í bobba þar sem breiddin er ekki mikil en Breiðablik með ungar og hungraðar stelpur sem eru tilbúnar að gefa allt í þetta og sanna sig, ég spái heimasigri hjá Breiðablik með tveimur stigum í hörkuleik.
Keflavík – Stjarnan
Mínum stúlkum í Keflavík hefur ekki gengið neitt svakalega vel með Stjörnuna undanfarin ár og ég á alveg von á svakalegri rimmu. Bæði lið með svipaðan kjarna og í fyrra en bæði þó bætt við sig mannskap en með sama útlending sem er kostur. Ég spái Keflavík sigri með 8 stigum.