Logi Gunnarsson og félagar í franska NM1 liðinu Angers máttu sætta sig við naumt tveggja stiga tap á heimavelli um helgina þegar Sorgues kom í heimsókn. Lokatölur leiksins voru 90-92 gestunum í vil.
Logi var í byrjunarliði Angers og lék í 27 mínútur í leiknum og skoraði á þessum tíma 5 stig. Okkar maður var ekki að finna taktinn fyrir utan þriggja stiga línuna en allar sjö þriggja stiga tilraunir hans fóru forgörðum. Þá var Logi með 3 stoðsendingar, 1 frákast og 1 stoðsendingu. Þess má geta að Quincy Hankins-Cole var í sigurliði Sorgues og gerði þar 12 stig og tók 7 fráköst en hann gerði víðreist með Snæfell á síðustu leiktíð.
Eftir fjóra leiki í deildinni hefur Angers unnið tvo og tapað tveimur og situr í 7. sæti deildarinnar.
Mynd úr safni/ Tomasz Kolodziejski – [email protected]