Keflavík hefur gengið frá samningi við Andy Johnston um að þjálfa karla- og kvennalið félagsins næstu tvö árin. Andy er 48 ára Bandaríkjamaður sem hefur yfir 20 ára reynslu sem þjálfari en síðastliðin fimm ár hefur hann verið aðstoðarþjálfari hjá St. Francis College í NCAA í Bandaríkjunum. Tímabilið 2007-2008 þjálfaði hann lið PUHU í 1. deildinni í Finnlandi við góðan orðstír en vegna fjárhagsörðugleika hélt hann ekki áfram með liðið. Fram að tímabilinu í Finnlandi þjálfaði hann hjá hinum ýmsu háskólum í Bandaríkjunum.
Ásamt því að þjálfa meistaraflokka félagsins mun Andy aðstoða við þjálfun hjá yngri iðkendum félagsins og miðla reynslu sinni inn í unglingastarfið. Þá mun hann vera öðrum þjálfurum félagsins til halds og trausts.
Karfan.is hafði samband við Fal Harðarson formann Keflavíkur sem sagðist afar sáttur með ráðninguna.
“Við komust í tæri við Andy í gegnum gamlan þjálfara Hauka, Glen Thomas. Andy hefur fengið mjög góð meðmæli frá þeim sem við höfum rætt við. Það er vonast eftir því að hann muni koma með nýjungar í okkar starf og fyrir okkar leikmenn en þetta er einmitt sá ferskleiki sem stjórnin vildi fá í starfið hjá okkur.” sagði Falur.
“Við gerum að sjálfsögðu miklar væntingar til hans og óhætt að segja að þessi ráðning hjá okkur svipar til þess þegar Lee Nober var ráðinn á sínum tíma. Það er því óskandi að hann marki spor sín jafn djúpt og Nober gerði á sínum tíma í körfuboltasögu Keflavíkur.”