spot_img
HomeFréttirAndris þegar búnaðurinn virkar ekki

Andris þegar búnaðurinn virkar ekki

Eins magnaður dagur og sjálfur bikarúrslitadagurinn er þá er það gersamlega óþolandi fyrir leigutaka, unnendur íþróttarinnar og alla aðra að þurfa að sitja undir töfum þegar búnaður við framkvæmd leiksins virkar ekki sem skyldi. Minnsta mál er að horfa í gegnum fingur sér þegar einstök atvik koma upp en þegar stöðugt sömu vandamálin skjóta upp kollinum aftur og aftur reynir virkilega á langlundargeðið.
 
Eins og meðfylgjandi mynd sýnir eru leikmenn klárir í slaginn í bikarúrslitaleik kvenna um helgina en búnaðurinn þurfti víst einhverja aðhlynningu og þetta gerðist nokkrum sinnum á bikarúrslitahelginni. Ætli kaninn kalli þetta ekki ,,anti-climax” eða andris. Spennuslagur framundan en það mega allir á staðnum og við sjónvarpstækin heima sætta sig við tafir því það er ekki hægt að hafa búnaðinn í skikkanlegu lagi. Þetta setti nokkra hnökra á bikarhelgina og er ekki úr vegi að kasta því fram að leigutakar eigi rétt á afsláttarkjörum fyrir vikið.
 
Skotklukkan var vandamál en í tveimur af stærstu leikjum ársins er annað sóknarliðið sem sér ekki á skotklukkuna í þónokkrum tilfellum. Þetta var ekki viðloðandi vandamál allan leikinn í báðum leikjum en þetta er gríðarlega mikilvægur þáttur leiksins eins og gefur að skilja. Hvað ef skotklukkan hefði verið í brennidepli og þörf á henni ef upp hefði komið einhvers konar hádramatískar lokasekúndur?
 
Það er ólíðandi að þjóðarleikvangurinn bjóði upp á slíkar aðstæður, sama hver orsökin kunni að vera. Þetta þarf að laga og það strax til að stórviðburðir eins og bikarúrslitahelgin í körfuknattleik geti gengið snuðrulaust fyrir sig. 
  
Fréttir
- Auglýsing -